151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:21]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi Tækniþróunarsjóð þá er 50% aukning nú meiri aukning en við höfum áður séð, þannig að ég myndi segja að við værum einmitt að bregðast við því þegar við sjáum hversu mikil ásókn er í sjóðinn því að þarna voru framúrskarandi umsóknir sem ekki var hægt að veita styrk. Varðandi framhald á þessari aukningu og prósentuhækkun vegna endurgreiðslu rannsókna og þróunar þá er ég að sjálfsögðu opin fyrir því að það verði til lengri tíma. En ég legg samt áherslu á að reynt verði að sjá hverju það mun raunverulega skila okkur af því að ég veit að þetta skiptir máli fyrir samkeppnishæfni okkar. Þetta hefur áhrif á verkefnin, en ég myndi vilja sjá það tekið út hverju þessar breytingar munu skila okkur þegar við horfum á forgangsröðun ákvarðana og fjármagns og hvernig við getum með sem öflugustum hætti styrkt nýsköpunarumhverfi á Íslandi.

Varðandi Stuðnings-Kríu er enn verið að fara yfir umsóknir. Það er í lokavinnslu þannig að ekki er búið að úthluta. Mér skilst að einhver fyrirtæki hafi hætt við, sem er í raun gleðilegt vegna þess að Stuðnings-Kría var neyðarúrræði en ekki viðbótarstuðningur fyrir alla, þannig að hlutfall hvers og eins fyrirtækis í úthlutunum hefur hækkað eitthvað. Það liggur þó ekki nákvæmlega fyrir hversu mikið. Það er alveg rétt að þörfin var umfram það fjármagn sem við gerðum ráð fyrir í það úrræði. Stuðnings-Kríu var komið á strax og var þess háttar viðbragð. Fjármagni í Kríu var flýtt og samhliða var úthlutunum úr Tækniþróunarsjóði flýtt og svo er viðbót núna. Það má skoða allt ef það flýtir ferlum. En ég get ekki sagt annað en að ég sé sátt bæði við þessar áherslur og þann kraft sem settur hefur verið í þessar aðgerðir og viðbragð Tækniþróunarsjóðs sömuleiðis á þessari stöðu og breytingum í samfélaginu.