151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:26]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Já, við erum aftur núna að setja viðbótarfjármagn í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem skiptir máli, bæði sem hagræn aðgerð, bara til að auka umsvif og koma af stað verkefnum, og líka til að nýta tímann á meðan allt er með kyrrum kjörum, allt of kyrrum kjörum. Við höfum áður átt þetta samtal um aðgengismál og úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Vissulega er ekki skylda til að fá úr sjóðnum að tryggja að aðgengismál séu að fullu tryggð. En það er samt bæði mikil áhersla á að svo sé og umsækjendur þurfa að skýra út og skrifa hvernig þeir tryggi aðgengismál, að þau séu með viðunandi hætti. Það þarf að gera til að haka í þau box sem haka þarf í til að auka líkur á því að fá úthlutað. En það er ekki hægt að segja að þessi mál séu eins góð og þau ættu að vera. Og það er ekki hægt að segja að ábendingar og aðhald, eins og hv. þingmaður veitir mér og þessum geira, skipti ekki máli vegna þess að það er mikil þörf á því. Það eru einstaka aðilar úti í samfélaginu sem eru í ferðaþjónustu og eru sjálfir í hjólastól sem eiga sinn þátt í því að frekari vitundarvakning hefur orðið í samfélaginu. Auðvitað vildum við vera í samfélagi þar sem slíkir einstaklingar þyrftu ekki að eyða orku, tíma og öðru í að berjast fyrir einhverju sem á að vera sjálfsagður hlutur. En það er einfaldlega enn þá þörf á því og það er þá hægt að þakka fyrir að einstaklingar berjist fyrir því af því að það skilar árangri. Auðvitað á fólk sem fær úr opinberum sjóðum til að byggja upp ferðamannastaði að tryggja að aðgengi sé fyrir alla. Það er ekki þar með sagt að hægt sé að tryggja aðgengi fyrir alla á áfangastaðinn allan enda er enginn að biðja um það, heldur að tryggja að allir geti notið áfangastaðarins, geti upplifað það jákvæða við hann, verið með útsýni og annað slíkt. Krafan er ekki stærri en það.