151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

sveigjanleg símenntun.

[11:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við erum að leggja gríðarlega áherslu á menntun í þessum heimsfaraldri og ég ætla að nefna nokkra þætti því til stuðnings. Í fyrsta lagi aukum við verulega fjármagn inn á framhaldsskólastigið. Við höfum gert það að sérstöku markmiði að þeir sem sækja um að komast inn í framhaldsskólana, í verktækni eða til bæta við sig stúdentsprófi, komist inn þannig að við höfum stóraukið fjármuni þar. Það sama má segja um háskólastigið. Þar erum við búin að stórauka fjármuni og staðan á háskólastiginu er allt önnur í dag en hún var fyrir nokkrum árum.

Hv. þingmaður spurði út í raunfærnimatið. Það er komið til framkvæmda víða. Ég vil nefna líka í því samhengi að á þingmálaskrá minni núna er lögð til lagabreyting þar sem við erum að opna inn á háskólann, þ.e. að þeir sem hafa lokið sveinsprófi komist að á háskólastigi kjósi þeir að gera svo. Tilgangurinn er ekki endilega að fjölga á háskólastiginu heldur líka að hvetja unga fólkið okkar til þess að sækja á ný mið og að það séu ekki einhverjar aðgangshindranir eftir að búið er að klára iðnnám. Þessi ríkisstjórn hefur því stóraukið fjármuni inn í menntakerfið. Í okkar huga er alveg ljóst að menntun er helsta hreyfiafl 21. aldar. Við vitum að það er mikill hreyfanleiki á vinnumarkaðnum og það er nauðsynlegt að fólk geti komist inn í menntakerfið og fengið endurmenntun. Við höfum svo sannarlega staðið við þau fyrirheit sem voru listuð í stjórnarsáttmálanum sem eru býsna framsýn.