151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Meginástæðan fyrir því að áfram er byggt á skattlagningu á dánarbúin er skattframkvæmdin í sjálfu sér. Ég hygg að vilji nefndin leita eftir sjónarmiðum Skattsins um þetta muni það koma mjög skýrt fram að það er mun flóknari skattframkvæmd að skattleggja hvern og einn arfþega. Þetta er á sinn hátt til einföldunar. En ég skil vel þessi sjónarmið og þau hafa áður verið reifuð hér í þinginu.

Aftur að rekstrarskilyrðum þeirra sem eru í veitingahúsaþjónustunni. Ég held að fullt tilefni sé til þess að velta því fyrir sér hvað við getum gert þar. Löngu áður en Covid fór af stað sáum við gríðarlega þröng rekstrarskilyrði þessara aðila. Leiga hefur hækkað mjög mikið, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Laun hafa sömuleiðis hækkað svo mikið að launahlutfallið í þessum rekstri er komið úr öllum takti við það sem þekkist víða annars staðar og opinber gjöld eru sömuleiðis mjög há, áfengir drykkir líklega einna dýrastir í Evrópu, a.m.k. átti það við áður en krónan lækkaði. Það þrengir því mjög að þessum rekstri og menn hafa (Forseti hringir.) mjög miklar áhyggjur í þessum rekstri almennt. Ég hyggst eiga fund með aðilum sem starfa á þessum vettvangi (Forseti hringir.) á næstu dögum og er fullt tilefni til að ræða þetta í stærra samhengi hlutanna á næstu vikum.