151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

tekjutenging atvinnuleysisbóta.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Lokunarstyrkir voru veittir í vor og eftir þeim var töluverð eftirspurn hjá þeim sem gert var að loka vegna sóttvarnaráðstafana. Nú höfum við kynnt að þeir verði aftur í boði og brugðist við þeirri gagnrýni sem fram kom í vor, þ.e. að þetta eigi eingöngu við um mjög lítil fyrirtæki. Eins og hv. þingmaður man var tiltölulega lágt þak á þessu þannig að það hjálpaði kannski líkamsræktarstöðvum, ef við tökum þær sem dæmi, með einhverja tugi starfsmanna, að fá lokunarstyrki fyrir þrjá til fjóra starfsmenn. Það er hins vegar hámark á því hversu mikinn styrk er hægt að fá á hvern starfsmann.

Hvað varðar aðra rekstraraðila hefur ríkisstjórnin boðað að við munum líka grípa til almennra aðgerða gagnvart þeim rekstraraðilum sem ekki hefur verið gert að loka en hafa orðið fyrir ákveðnu tekjufalli. Við gripum að sjálfsögðu til frestunar á gjalddögum hér í vor, en nú horfum við meira til styrkveitinga þannig að fyrirtæki sem orðið hafa fyrir tilteknu tekjufalli geti haldið einhverri lágmarksstarfsemi og það þarf auðvitað að setja í samhengi við hugsanlegar frekari frestanir.