151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

jöfn staða og jafn réttur kynjanna.

14. mál
[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um samráð við fatlað fólk. Ég vildi bara ítreka það hér að sérstaklega var óskað eftir fulltrúum frá hagsmunasamtökum þeirra við upphaf lagasetningarinnar þar sem haldinn var hugarflugsfundur um inntak laganna. Og hins vegar sendu þau inn sérstaka umsögn í samráðsgátt.

Hvað varðar kynhlutlausa skráningu kann vel að vera að hv. þingmaður fái einhverja tilfinningu fyrir þessu. Eigi að síður er það svo að þetta var unnið algerlega jafnhliða ritun frumvarpsins. Í október 2019 skipaði ég starfshópa sem unnu þetta á því þingi, ef ég man rétt. Lögin eru frá árinu 2019 þannig að þetta var undir allan tímann.

Hvað varðar skiptu skoðanirnar vitnar það í raun og veru til umræðu sem hefur verið um þessi mál. Það sem kemur fram í greinargerð endurspeglar ekki endilega skoðun mína á málinu. Og ég held að engum hér inni sé greiði gerður með því að líta fram hjá þeirri umræðu sem hefur verið um þessi mál. Við höfum haft okkur til ráðgjafar færustu sérfræðinga okkar þegar kemur til að mynda að málefnum þeirra sem velja kynhlutlausa skráningu. Þetta er raunverulega bara eitthvað sem fólk á orðaskipti um. Ég held að engum sé greiði gerður með því að reyna að draga einhverja dul á að það geta verið skiptar skoðanir um þetta. Þess vegna kemur það fram í greinargerð þó að skoðun mín á þessu sé annað. Ég held að það sé einmitt mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki þetta til umræðu.