151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:41]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Fyrstu skref okkar sem þjóðar í þessu ógnarstóra verkefni sem við höfum glímt við undanfarna mánuði einkenndust af fallegri samstöðu og samkennd. Leiðarljósið var að verkefnið væri okkar allra og ég leyfi mér að segja að sem þjóð stóðum við saman sem eitt. Í fyrstu var áherslan eðlilega á baráttuna við heimsfaraldurinn, þetta stóra verkefni, að verja ekki aðeins líf heldur heilbrigði heillar þjóðar. Næst kom svo efnahagslega áfallið sem við sjáum nú að er að reynast okkur okkar dýpsta kreppa í heila öld. Við okkur blasa jafnframt alvarlegar félagslegar afleiðingar sem gætu orðið langvinnar nú þegar enn er að lengjast í faraldrinum. Ég vil þar sérstaklega nefna ungt fólk og okkar elstu borgara. Þetta eru sögulegir tímar og í upphafi vil ég leyfa mér að fá að þakka sóttvarnayfirvöldum, þakka smitrakningarteyminu og öllum þeim sem standa í ströngu núna í þessari vinnu vegna faraldursins. Það geri ég sannarlega af heilum hug.

Viðreisn hefur stutt og mun áfram styðja aðgerðir stjórnarinnar sem geta leitt fólkið í landinu, heimilin og fyrirtækin út úr þessum erfiðu aðstæðum. Við höfum talað skýrt um að nú eigi og nú verði að taka stór skref og stór skref strax.

Forseti. Það er óumdeilt að það eru brýnir almannahagsmunir að baki sóttvarnaaðgerðum og stjórnvöld hafa nokkurt svigrúm til að meta hvaða úrræða eigi að grípa til á hverjum tíma. Stjórnvaldsfyrirmæli hafa verið í stöðugri endurskoðun sem er í mínum huga til marks um vilja þeirra til að ganga ekki lengra en þörf er og um leið til marks um virðingu fyrir meðalhófi. Það finnst mér ég lesa út úr þessari viðleitni, að herða og milda aðgerðir eftir því sem fram vindur. Löggjafinn getur eðlilega ekki stigið inn í einstaka aðgerðir þar, enda er það ekki hlutverk þingsins. Löggjafans er hins vegar að hafa eftirlit.

Í þessu hættuástandi er því miður ástæða til að gagnrýna verklag ríkisstjórnarinnar. Aldrei er mikilvægara að Alþingi sé gert kleift að sinna eftirlitshlutverki sínu en í hættuástandi eins og því sem við stöndum frammi fyrir núna. Svo það sé sagt þá hafa þessi mál vitaskuld verið til umræðu hér í þingsal en það hefur ekki síst verið vegna stjórnarandstöðunnar. Það verður að segjast að stjórnin hefur ekki axlað þá ábyrgð sem á henni hvílir í þessu sambandi. Stjórnin hefur lítið frumkvæði sýnt um umræðu við þingið og vagninn hefur verið dreginn af embættismönnunum. Kannski hefur það þótt þægilegra en eðlilegt er það ekki. Og rétt eins og það er beinlínis skylda stjórnvalda núna að grípa inn í hættuástand til að verja hagsmuni heildarinnar er það ekki bara réttur Alþingis heldur skylda að fá að sinna eftirlitshlutverki sínu með stjórnvöldum.

Tvennt vil ég nefna sérstaklega við þessar aðstæður. Í fyrsta lagi: Hvers vegna er frumvarp ríkisstjórnarinnar um ný sóttvarnalög ekki ofar á dagskrá? Nú þegar við höfum reynsluna er bæði tímabært og nauðsynlegt að skilgreina betur hlutverk sóttvarnayfirvalda annars vegar og hlutverk ráðherra hins vegar sem gerir hvorum aðila um sig auðveldara að sinna sínu hlutverki. Það er undarleg pólitísk forgangsröðun að setja sóttvarnayfirvöldum ekki skýrari lagaumgjörð núna, skýrari lagastoð og auðvelda þeim með því sína mikilvægu vinnu og auðvelda um leið umræðuna í samfélaginu. Og þetta segi ég ekki vegna þess að ég sé að mæla endilega með mildari aðgerðum, ég segi það ekki heldur vegna þess að ég sé að mæla með harðari aðgerðum, heldur einfaldlega til að benda á að löggjöfin okkar er ekki nægilega skýr. Það er löggjafans að setja skýra umgjörð núna því að við vitum hvar veikleikarnir í löggjöfinni eru. Þess vegna ætti ríkisstjórnin að setja þetta mál í algeran forgang. Það skortir því miður aðeins upp á að lögin séu nægilega skýr og vönduð og það er skiljanlegt. Þessar aðstæður sá enginn fyrir. Sóttkví er t.d. ekki nægilega skilgreind svo eitthvað sé nefnt. Það er nauðsynlegt að þetta verði sett í forgang.

Hitt atriðið sem ég nefni lýtur að því meginhlutverki Alþingis sem er að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, sem ég nefndi áðan. Skylda þingsins þar er bæði skýr og ótvíræð. Það er Alþingis að fara yfir framkvæmdina núna þegar reynslan er komin og það þarf að vera vakandi fyrir því að þingið sé ekki vængstýft einmitt núna þegar reynir svo mjög á hlutverk þess þó að það sé kannski ekki beinlínis ætlunin. Það þarf að vera vakandi fyrir þessu. Nú er ekki rétti tíminn til að veikja aðhaldið vegna aðstæðna. Þessar aðstæður gera það einmitt þvert á móti að verkum að hlutverk þingsins hefur sjaldan verið mikilvægara. Og nú þegar þessar fordæmalausu aðstæður, eins og við kölluðum þær í byrjun, eru orðnar hluti af okkar daglega lífi verðum við að átta okkur á því að Alþingi verður að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu. Stjórnarandstaðan verður að fá að spyrja spurninga og sýna stjórninni aðhald. Staðan kallar á alvöruumræðu um hugmyndafræði, t.d. um það hver eigi að vera eðlilegur skurðpunktur á milli sóttvarnaaðgerða annars vegar og efnahagsaðgerða hins vegar. Þetta er pólitískt mat, þetta er pólitísk jafnvægislist og eftir þessu mati hefur sóttvarnalæknir sjálfur kallað. Ég lít svo á að það sé aukin skylda á stjórnvöldum um efnahagsaðgerðir þegar hluti efnahagsvandans stafar af sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda.

Forseti. Án beittrar pólitískrar umræðu getur Alþingi einfaldlega ekki gætt hagsmuna almennings eins og því er ætlað. Við heyrum að meiri hlutinn er ekki alveg einhuga og það er í sjálfu sér heilbrigðismerki þó að þau leggi sig fram um að gera minna úr ágreiningnum. Krafan gagnvart minni hlutanum getur ekki bara verið hjal um að hlýða og stimpla allt frá meiri hluta undir formerkjum samstöðu. Það er krafa um undirlægjuhátt. En þetta samtal og eftirlit er ekki bara réttur þingsins, það er skylda. Það er skylda stjórnarinnar að vera hér til svara, ekki bara á blaðamannafundum heldur í þingsal við fulltrúa þjóðarinnar. Þetta er ekki bara æskilegt núna, það er nauðsynlegt.

Umræðan hér í dag er góð, hún er nauðsynleg og fyrir hana þakka ég, en legg áherslu á að það dugar ekki að þetta mál, sem er í sjálfu sér það allra stærsta í samfélaginu núna og í sögulegu samhengi með stærri málum sem hafa verið á dagskrá, sé sett á dagskrá með þessum hætti og í þetta eina sinn. Ég geri kröfu um það og við gerum kröfu um það að þingið sé jafnt og þétt upplýst og að í þingsal séu aðgerðirnar til umræðu. Þessi góða umræða í dag hefði átt að eiga sér stað fyrr af hálfu stjórnarinnar og hún þarf að eiga sér stað oftar.