151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:56]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér valdheimildir stjórnvalda hvað sóttvarnaráðstafanir varðar. Fyrir liggur álitsgerð dr. Páls Hreinssonar, um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, sem hefur að geyma fjölmargar gagnlegar ábendingar um hvað má betur fara í lögunum og sérstaklega hvað varðar skýrleika lagaheimilda sem stjórnvöld byggja á. Mikilvægt er að stjórnvöld byggi á skýrum og afdráttarlausum lagaákvæðum sem eru í fullu samræmi við ákvæði í stjórnarskrá þegar takmarkanir eru settar á frelsi og athafnir borgaranna, eins og gert hefur verið undanfarna mánuði.

Herra forseti. Áður en lengra er haldið vil ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er mjög mikilvægt að stjórnmálin fái vettvang hér á löggjafarþinginu til að taka til umræðu aðgerðir stjórnvalda sem ganga út á að hefta atvinnufrelsi og einstaklingsfrelsi almennt í landinu og ganga á og takmarka þau borgaralegu réttindi sem við höfum um langt skeið talið bæði sjálfsögð og eðlileg. Slíkar takmarkanir á frelsi íbúa í lýðræðisþjóðfélagi eiga aldrei og mega aldrei vera sjálfsagðar eða sjálfvirkar og eiga að sæta eðlilegri gagnrýni. Og sú gagnrýni verður að fá að heyrast. Þess vegna fagna ég þessari umræðu.

Herra forseti. Síðan Covid-19 faraldurinn kvaddi dyra mannkyns hefur heimurinn tekið miklum breytingum og er ótrúlegt til þess að hugsa að fyrir aðeins ári höfðum við aldrei heyrt minnst á þennan sjúkdóm. Veröldin hefur á einu ári breyst meira og hraðar en nokkur dæmi eru um ef frá eru skildir tímar heimsstyrjaldanna. Öll lönd í veröldinni eru í svipuðum sporum hvað baráttuna varðar. Ferðalög hafa lagst af og efnahagur þjóða, sem byggist t.d. á ferðamönnum, hefur orðið fyrir miklu tekjufalli. Við Íslendingar erum þar á meðal. Öllum er ljóst að Covid-19 er grafalvarlegur og oft og tíðum lífshættulegur sjúkdómur. Full ástæða er til að stjórnvöld bregðist við, sérstaklega til að verja viðkvæma hópa.

Margir hafa bent á að tjón af völdum aðgerða geti verið mun meira en tjón af völdum sjúkdómsins og rétt er að hlusta gaumgæfilega á slíkar ábendingar. Enginn vill að lækningin sé verri en sjúkdómurinn. Því verður á hverjum tíma að fara fram mat á þeim ráðstöfunum sem stjórnvöld ætla að grípa til sem takmarka frelsi þegnanna. Það mat getur einnig breyst með tímanum eftir því sem áhrif aðgerðanna á samfélagið verða alvarlegri.

Svo virðist sem við séum að sjá sýnilegan árangur í baráttu okkar við veiruna nú í þriðju bylgju — ég varð eiginlega aldrei var við þessa aðra bylgju — en það er aldrei á vísan að róa því að útbreiðsla hennar víða erlendis virðist ekkert vera í rénum. Sumir segja að bóluefni sé handan við hornið en við gætum þurft að þreyja þorrann og góuna og gott betur áður en við sjáum til lands hvað það varðar. Því er viðbúið að ráðstafanir stjórnvalda verði að vera í sífelldri endurskoðun og umræðan verður að halda áfram. Hvað sem öðru líður, herra forseti, er ástandið svipað í löndunum í kringum okkur og ráðstafanir nágrannalanda með svipuðu sniði og hér. Ferðamennska getur ekki hafist að neinu marki fyrr en ástandið lagast í næsta nágrenni við okkur eða viðhorf til ferðatakmarkana breytist af orsökum sem við sjáum ekki fyrir núna.

Herra forseti. Til bjargar lífi og heilsu er sjálfsagt að grípa til aðgerða sem eru í samræmi við hættuna sem steðjar að, að ráði bestu sérfræðinga. Viðbrögðin verða þó oft umdeilanleg og sérstaklega nú þegar tíminn líður og lengra líður frá upphafi faraldursins. Mikilvægt er að allar þær reglur sem settar eru séu skýrar og án allra undantekninga, eins og nokkur kostur er. Það er mjög til að draga úr árangri og tiltrú ef undantekningar eru of margar og of flóknar. Mikilvægt er að reglurnar séu skýrar svo að fólki sé ljóst til hvers er ætlast af því. Skýrleiki dvínar mjög ef verið er að hringla í reglunum, þeim breytt oft og ef regla er afnumin og svo sett fljótlega aftur á. Tiltrú almennings á aðgerðum er frumskilyrði fyrir góðum árangri í baráttunni við veiruna því að ef hún glatast verður ekki við neitt ráðið.

Herra forseti. Krafan er að stjórnvöld séu reiðubúin til að taka áfram umræðuna um viðbrögð við þessari vá. Þá verður að gera þá kröfu að öll fyrirmæli og reglur stjórnvalda byggist á skýrum heimildum í lögum. Þvingunarráðstafanir stjórnvalda verða þannig, hvað allar takmarkanir á athafnafrelsi íbúa varðar, að byggjast á sjálfstæðum, skýrum og afdráttarlausum lagaheimildum.