151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

loftslagsmál.

[14:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu um loftslagsmál. Ég tel að Ísland hafi mikla burði til þess að láta til sín taka í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Við höfum drifkraft og útsjónarsemi til að geta tekið græn og stór skref. En það er verk að vinna.

Gríðarlega stórt hlutfall af árlegri heildarlosun Íslands kemur frá framræstu votlendi og illa förnu landi. Áætlaðar tölur eru 18 milljónir tonna af samtals 23 milljón tonna heildarlosun eða um 80%. Við verðum að hafa marktækar og aðgerðabundnar áætlanir til að draga úr þessari losun. Sveitarfélög eða stofnanir á þeirra vegum þurfa að taka virkan þátt í eftirliti með framræstu lands, jarðvegseyðingu og ræktun framandi tegunda á sínum svæði. Landeigendur sem eiga land sem er skilgreint sem framræst votlendi eða illa farið land þyrftu að gera grein fyrir landnýtingu á jörðum sínum og leggja fram áætlanir um hvernig þeir ætli að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda. Síðan þurfa stjórnvöld að veita landeigendum stuðning og hvata til þessara verka.

Meðal leiða sem rétt væri að fara hér er að gefa t.d. kjötbændum kost á því að gerast kolefnisbændur. Leggja fram hvata og veita þeim bændum sem þess óska stuðning til að breyta landnotkun sinni í þá átt að skapa ný og önnur verðmæti. Hvetja til nýsköpunar og hampa frumkvöðlum í landbúnaði og landnotkun. Nýta hvata og ívilnanir til að flýta þessum nauðsynlegu grænu skrefum. Ef stjórnvöld búa þannig um hnútana munu landeigendur og bændur finna réttu leiðina.