151. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2020.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Hlutverk fjármálaráðs er mikilvægt og ég held að það sé óumdeilt að sú faglega nálgun sem ráðinu er ætlað sé nauðsynlegur þáttur fyrir þingið í umfjöllun um stefnu og áætlanir stjórnvalda. Ég fullyrði að það var heillavænlegt að skrifa hlutverk fjármálaráðs inn í lögin eins og gert er í 13. gr. laga um opinber fjármál, en þar segir m.a.:

Fjármálaráð er sjálfstætt í störfum sínum og leggur mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi grunngildum og skilyrðum 6. gr. og 7. gr. Þá er jafnframt mælt fyrir um að Alþingi tilnefni fulltrúa í fjármálaráð með hliðsjón af eftirlitshlutverki þingsins og þeirri ábyrgð sem felst í samþykkt fjármálastefnu og fjármálaáætlunar.

Að skrifa inn hlutverk fjármálaráðs með þessum hætti var heillavænleg nálgun þegar lögin voru skrifuð og samþykkt, og ég tel reyndar að það hafi þegar sannast í því verklagi sem lögin setja ríkisfjármálunum. Ekki hefur dregið úr gildi ráðsins og faglegrar nálgunar þess við þær sérkennilegu kringumstæður sem við erum nú að kljást við á vettvangi ríkisfjármálanna. Við slíkar aðstæður kjarnast einnig mikilvægi formfastrar umgjarðar.

Nú hefur ráðið skilað áliti vegna fjármálaáætlunar 2021–2025 og fundað með fjárlaganefnd. Það var gagnlegur fundur eins og ávallt. Álitið grundvallar að einhverju marki umræðuna, að einhverju leyti til mótvægis við þær pólitísku áherslur sem við tökumst á um, og verður auðvitað að vera til staðar. En álitið mun hér eftir sem hingað til gagnast vel í þeirri umfjöllun fjárlaganefndar og þingsins sem fram undan er.

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með ráðinu, sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„… að þakka megi lögum um opinber fjármál og því verklagi sem þau boða fyrir það hve þjóðarbúið er vel í stakk búið til að takast á við núverandi áskoranir.“