151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

fasteignalán til neytenda og nauðungarsala .

34. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur tekist um þetta frumvarp og byrja kannski á því að þakka síðasta ræðumanni fyrir áhugaverðar hugmyndir og ábendingar um leið og ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að gefa mér tilefni og tækifæri til að koma því hér á framfæri að þetta mál er hér vegna þess að það er forgangsmál af hálfu Miðflokksins.

Herra forseti. Hv. þm. Sigurður Páll Jónsson rifjaði upp að þetta mál eða sambærileg mál hafi áður komið fram. Þetta er í þriðja sinn sem ég flyt málið en það er að nokkru leyti öðruvísi en það birtist hér á fyrri tíð vegna þess að það tekur mið af nýlegri lagaþróun, eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu, og sömuleiðis er það með sínum hætti samofið evrópskum réttarreglum, eins og ég gat um í framsöguræðu minni.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson lagði m.a. áherslu á það sem hann kallaði forvarnir gegn því að fólk rati í greiðsluerfiðleika. Það er mjög mikilvægur þáttur í málinu öllu og ber að taka undir það og styrkja rétt neytenda á þessu sviði og reyndar að styrkja stöðu neytenda almennt. Frumvarpið er mjög eindregið í þá átt.

Þá hlýt ég að geta þess að mjög athyglisvert var að hlusta á hv. þm. Karl Gauta Hjaltason mæla hér af sinni löngu embættisreynslu sem sýslumaður og lögreglustjóri, hvernig hann beinlínis lýsti því hvernig hann hefði sjálfur horft upp á fólk hundelt af hálfu kröfuhafa eftir að heimilið hafði gengið því úr greipum og hafði verið boðið upp. Það er í raun og veru ekki boðlegt. Frumvarpið er náttúrlega lyklafrumvarp, það snýst um að þegar fólk er búið að láta af hendi andlagið fyrir veðinu, eins og það heitir, þ.e. húsnæðið, verði það ekki krafið um meira. Það skili bara lyklunum og málunum sé lokið með því.

Herra forseti. Mig langar að segja hér að við höfum ærið tilefni til að reisa varnir í þágu heimilanna. Reynslan úr hruninu talar sínu máli. Verðtryggingin æddi yfir landið, eyðandi og brennandi heimilin ofan af fólkinu. Hún var að störfum allan sólarhringinn, meðan fólkið svaf. Foreldrarnir máttu þúsundum saman leiða börnin við hönd sér út af heimilunum vegna þess fyrirkomulags sem við höfum hér.

Þess vegna hef ég, herra forseti, fyrir utan þetta lyklafrumvarp sem ég flyt hér í þriðja sinn, flutt frekari tillögur, m.a. um það sem ég kalla tangarsókn gegn verðtryggingunni. Það er mjög mikilvægt að farið sé vandlega ofan í það sem heitir vanskilaskrá, hvað þurfi til að hrinda manni fjárhagslega fyrir björg sem það raunverulega er að rata inn á slíka skrá. Einnig starfsemi fjárhagsupplýsingastofu. Það liggur fyrir skýrsla um húsnæðisliðinn sem ég veit ekki til að hafi verið rædd hér. Það hlýtur að koma að því að sú skýrsla verði rædd. Það er (Forseti hringir.) nauðsyn að rétta hlut heimilanna og reisa fullnægjandi varnir í þágu þeirra.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.