151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

almannatryggingar.

92. mál
[17:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil bara örstutt lýsa yfir stuðningi við málið. Annað væri kannski skrýtið þar sem ég er þess heiðurs aðnjótandi að vera meðflutningsmaður á því ásamt hv. þingmönnum Guðmundi Inga Kristinssyni, sem hér talaði á undan, og Ingu Sæland. Mér fannst rétt að koma hingað upp og nefna það sem ég tek alltaf eftir þegar kemur að umræðu um þessi mál, þ.e. hvernig almennt er litið á málefni öryrkja og aldraðra sem afgangsstærð. Sífellt þegar barist er fyrir réttarbótum þessara hópa er viðhorfið, að því er virðist, alla vega frá ríkisstjórn hverju sinni og þeim sem taka ákvarðanirnar á endanum, það að þetta sé ekki raunverulega alvarlegt vandamál.

Eins og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson fór ágætlega yfir áðan er almannatryggingakerfið stjarnfræðilega flókið. Það er ótrúlega flókið. Það er svo flókið að erfitt er að lýsa því og ég skora bara á áheyrendur að reyna að komast til botns í því hvernig nokkrir hlutir virka. Það er áberandi að þær fáu manneskjur sem maður hittir í þessu starfi sem virðast hafa raunverulegan skilning á því eru skjólstæðingar kerfisins, sem hafa þá þekkingu á kerfinu sem varðar þá sjálfa. Sennilega er ekki til fjölbreyttari hópur í heiminum en öryrkjar og fatlað fólk, aðstæður þess fólks eru því misjafnar og einnig mjög misjafnt hvernig aðstæðurnar snúa að kerfinu. Sérfræðiþekkingin sem þarf til þess að öðlast almennilegan skilning á kerfinu er því ótrúlega mikil. Það eitt og sér er vandamál því að það gerir okkur erfitt fyrir að laga þetta jafnvel þegar við höfum allan vilja til þess. Sömuleiðis hygg ég, og hendi hér fram tilgátu, að það sé meðal ástæðnanna fyrir því að komið er fram við almannatryggingakerfið eins og það sé alltaf bara eitthvert kvabb að vilja breyta því. Það verður hratt tæknilegt og það verður hratt flókið, og hratt er farið að tala um aðstæður sem hver og einn þingmaður sér kannski ekki sjálfan sig eða sína nákomnustu í dagsdaglega.

Við verðum að ráða bug á þessu hugarfari og við verðum að taka þessi mál alvarlega og hætta að líta á almannatryggingakerfið og skjólstæðinga þess sem afgangsstærð.