151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[18:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna í þessu mikilvæga máli. Aftur og enn erum við hér stödd, þingmenn, að mæla fyrir og mæla með frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, frumvarpinu óbreyttu eins og það stóð þegar lýðræðislegasta starfi að ritun stjórnarskrár sem þekkist hafði staðið yfir um missera skeið vegna baráttu Jóhönnu Sigurðardóttur sem alla tíð stóð með þeirri sannfæringu sinni í störfum sínum hér í þinginu að ný stjórnarskrá myndi færa íslenska þjóð fram á veginn og til betra samfélags. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs. Nefnd um málið mun hefja störf í upphafi nýs þings og leggur ríkisstjórnin áherslu á að samstaða náist um feril vinnunnar.“

Já, nefndin hefur vissulega verið að störfum. Þar sem samstaða er engin, hvorki innan ríkisstjórnar né utan, mun hæstv. forsætisráðherra flytja nokkur frumvörp til breytinga á stjórnarskipunarlögum sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, ekki sem leiðtogi þeirrar samstöðu sem hún kallaði eftir, en ríkisstjórnin lagði við upphaf kjörtímabilsins áherslu á, ég endurtek, með leyfi forseta, „að samstaða náist um feril vinnunnar“. Það er kannski þarna sem lykilorðið er, „feril vinnunnar“, að samstaða næðist um ferlið sjálft en ekki málið sjálft greinilega. Kannski var aldrei um það að ræða af hálfu stjórnarflokkanna þriggja, þeirrar breiðu stjórnar, að samstaða yrði um efnið. Kannski var þetta samstaða um ferlið á kjörtímabilunum en ekki neitt annað og það er kannski það sem er að birtast okkur núna.

Við í Samfylkingunni höfum ítrekað bent á mikilvægi þess að Alþingi Íslendinga virði vilja þjóðarinnar í þessu máli. Þrátt fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla sem átti átta ára afmæli í gær hafi verið ráðgefandi þá var niðurstaðan skýr. Við megum aldrei gleyma að stjórnarskrárgjafinn er íslenska þjóðin. Þjóðin skal kjósa um stjórnarskrá en löggjafinn er Alþingi og það er okkar hér að vinna frumvörp til stjórnarskipunarlaga og klára málið. Hér gefst almenningi og félagasamtökum kostur á að senda inn umsagnir og mæta fyrir fastanefndir Alþingis. Hæstv. forsætisráðherra hefur talað um að mikilvægast sé að um þetta mál náist sem breiðust sátt og þess vegna spyr ég hér: Sátt hverra og um hvað? Er nóg að sátt náist um ferlið? Er nóg að sátt náist um það að hæstv. forsætisráðherra leggi fram frumvarp í eigin nafni? Mér þykir það harla lítill metnaður hjá hæstv. ríkisstjórn, verð ég að segja.

Barátta jafnaðarmanna fyrir nýrri stjórnarskrá hefur staðið áratugum saman. Vilmundur Gylfason og Jóhanna Sigurðardóttir voru lengi vel í fararbroddi þeirra sem töluðu ítrekað fyrir nýrri stjórnarskrá en á undan þeim höfðu forverar þeirra á þingi, í ýmsum flokkum, lagt til stöku breytingar á þeirri bráðabirgðastjórnarskrá sem danski kóngurinn færði nýlenduþjóð sinni. Ákallið eftir nýrri og breyttri stjórnarskrá jókst mjög eftir bankahrunið 2008. Jóhanna Sigurðardóttir setti málið á dagskrá þegar hún tók við lyklunum í Stjórnarráðinu og hófst þá, svo ég leyfi mér að vitna í orð frú Vigdísar Finnbogadóttur, víðfeðmasta og lýðræðislegasta starf að stjórnarskrárritun sem sagan kann frá að greina.

Ég er sammála frú Vigdísi. Stjórnlaganefnd var sett á fót, 1.000 manna þjóðfundur fólks af öllu landinu sem valinn var með slembiúrtaki, sat á rökstólum um þau gildi og markmið sem ættu að vera í samfélagssáttmála íslenskrar þjóðar. Stjórnlagaþing var kjörið og síðan stjórnlagaráð skipað af Alþingi, þar sem raddir ólíkra afla úr samfélaginu fengu hver sitt sæti. Ráðið vann um nokkurra mánaða skeið og afhenti Alþingi drög að nýrri stjórnarskrá sem borin var undir þjóðina með þjóðaratkvæðagreiðslu. Yfirgnæfandi meiri hluti vildi að á því verki yrði byggt. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis lauk vinnu við frumvarp til nýrra stjórnarskipunarlaga, byggt á verki stjórnlagaráðs, að vilja þjóðarinnar. Það er það mál sem við erum að fjalla um hér, herra forseti. Það er nákvæmlega þetta plagg sem við erum hér að fjalla um, þetta plagg sem var gert í lýðræðislegasta ferli sem þekkist á byggðu bóli en enn hefur ný stjórnarskrá ekki verið lögfest. Aftur leyfi ég mér að vitna í orð frú Vigdísar Finnbogadóttur, með leyfi forseta, en hún hefur sagt að íslenska þjóðin hafi beðið nógu lengi og ég er henni aftur innilega sammála.

Hið lýðræðislega ferli sem hófst árið 2009 er ekki ónýtt, alls ekki, langt því frá. Því hefur ekki verið hafnað eins og haldið hefur verið fram í umræðunni hér að undanförnu, langt því frá. Það þarf að bera virðingu því og endurvekja. Það þarf að bera virðingu fyrir þeim kröftum sem þar bjuggu að baki, þeim samtakamætti þjóðarinnar sem kom saman á þjóðfundi, þeim rúmlega 500 einstaklingum sem buðu fram krafta sína á stjórnlagaþing, öllum þeim sem komu saman til að kjósa fulltrúa á þingið, vinnu fulltrúanna sjálfra og loks þjóðarinnar sem kaus í atkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Það er svo mikilvægt fyrir áframhaldandi samstöðu þessarar fámennu þjóðar að láta ekki eins og þetta lýðræðislegasta ferli við stjórnarskrárgerð hafi ekki átt sér stað og það er því miður verið að gera í dag. Margir láta eins og þetta hafi ekki átt sér stað. En við sem stöndum hér í dag og erum flutningsmenn þessa máls ætlum að bera virðingu fyrir þessu ferli. Við höfum gert það áður. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við erum að flytja þetta mál og við eigum að bera virðingu fyrir allri þeirri vinnu sem þúsundir einstaklinga hafa innt af hendi. Með því að hunsa allt þetta mikilvæga ferli og búa til sitt eigið er hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin öll að gera lítið úr þeim þúsundum sem lögðu sig fram í fallegu og heiðarlegu samtali við fjölda fólks.

Á þessu kjörtímabili var gerð tilraun til einhvers konar samráðs, fyrst með rökræðukönnun og svo fundi í Laugardalshöll þar sem rúmlega 200 manns sátu og fengu efni til umræðu sem afmarkað hafði verið af stjórnvöldum. Nú ætla ég alls ekki að gera lítið úr því framtaki sem þar var eða framlagi þeirra sem þangað mættu en við getum ekki horft fram hjá því að nýja stjórnarskráin, sú sem við fjöllum um hér í dag, var þar hvergi nærri. Þeir sem óskuðu eftir því að fá að ræða efni hennar á fundinum voru vinsamlegast beðnir að halda sig við hið afmarkaða efni.

Niðurstaða þessa meinta samráðs virðist svo að einhverju leyti hafa lent ofan í skúffu í Stjórnarráðinu ef marka má umsögn Jóns Ólafssonar sem var einn þeirra sem fóru fyrir rökræðukönnuninni. Í umsögn sinni um frumvarpsdrög, um forsetakaflann, sem var lagður fram í samráðsgátt stjórnvalda, kemst Jón svo að orði, með leyfi forseta, að í frumvarpinu sé nánast ekkert reynt að tengja tillögur, röksemdir og útskýringar í frumvarpinu við almenningssamráðið, eða skulum við segja hið meinta almenningssamráð. Hann segir að vísanir til einstakra þátta samráðsins séu tilviljanakenndar og á stöku stað villandi. Ekki sé reynt með neinum kerfisbundnum hætti að byggja á samráðinu þegar svo vill til að niðurstöður almenningssamráðsins séu í samræmi við frumvarpsdrögin og engin tilraun heldur gerð til að skýra frávik í frumvarpsdrögunum frá því samráði sem átti að hafa átt sér stað, frávikin eins og þau koma fram í þessum frumvarpsdrögum. Jón segir, með leyfi forseta:

„Þannig er almenningssamráðið að sumu leyti vannýtt í greinargerðinni og frumvarpinu sjálfu, en að öðru leyti sniðgengið.“

Þannig virðist sem hið svokallaða samráð ríkisstjórnarinnar í þessu máli sé eingöngu í orði en sjáist ekki á borði. Það er svo sem kunnuglegt stef fyrir okkur í stjórnarandstöðunni, samráðið er meira í orði en á borði. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með fulltrúum stjórnarflokkanna réttlæta ferlið sem átt hefur sér stað á kjörtímabilinu sem senn lýkur. Réttlætingin fyrir þeim bútasaumi sem þjóðinni er boðið upp á er ávallt sú að reynt sé að skapa sem breiðasta samstöðu um breytingar á stjórnarskránni en það blasir við að bútasaumstilraun hæstv. forsætisráðherra mun líkast til ekki einu sinni nást í gegnum ríkisstjórnarflokkana þannig að það er spurning hvar hin breiða samstaða á þá að liggja. Þessi tilraun, þar sem farin er sú leið að gera sem minnst til að styggja ekki þann stjórnarflokk sem grimmilega hefur um áratugaskeið barist gegn nauðsynlegum lýðræðisbreytingum, virðist vera strönduð á skeri og þá er helst hrópað að þau sem vilja byggja á fyrra ferli séu ekki nógu dugleg í málamiðlunum.

Aðeins aftur að þessu skjali sem við erum að fjalla um hér í dag, af því að þetta er óbreytt skjal frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hafði verið ritrýnt af Feneyjanefndinni. Það er afar mikilvægt að flutningsmenn þessa frumvarps hafa ekki hróflað við því sem stóð í frumvarpinu. Hvers vegna? Vegna þess að við erum að leggja þetta fyrir Alþingi eins og það stóð eftir hið lýðræðislega ferli. Hér inni gefst flutningsmönnum og öllum þingmönnum tækifæri til þess að koma með sínar hugmyndir að breytingum á þessu plaggi. Þetta er frumvarp og frumvörp taka breytingum inni á Alþingi eftir umræðu. Sú sem hér stendur er ekkert sammála öllu sem stendur þarna en vill standa með því lýðræðislega ferli sem hefur átt sér stað. Takist slíkt ekki, að standa með því, er hætta á að traust almennings til Alþingis nái ekki að rísa á meðan við leysum ekki þetta verkefni.

Ef ekki tekst að fá meiri hluta fyrir því að afgreiða þetta mál tel ég blasa við að endurvekja verði bráðabirgðaákvæði það sem fallist var á að setja í stjórnarskrána árið 2013 eftir langt málþóf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Bráðabirgðaákvæðið er þess efnis að hægt væri að gera breytingar á stjórnarskrá án tveggja þingkosninga á milli.

Ferlið er löngu byrjað. Það er ekki ónýtt, alls ekki. Við þurfum bara að bera virðingu fyrir því og ljúka því með sóma. Í því er skýr vilji meiri hluta þjóðarinnar og hann ber að virða.