151. löggjafarþing — 13. fundur,  21. okt. 2020.

stjórnarskipunarlög.

26. mál
[18:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Það er óhugsandi að tæma umræðuna núna. Ég vildi óska þess að þetta mál kæmist til 2. umr. þannig að við gætum rætt það almennilega, kannski ekki að eilífu eins og gerðist á sínum tíma en hins vegar meira en verður hægt í 1. umr. Ég vona að það komist út úr nefnd þegar það hefur farið til hennar og fengið þar umfjöllun og væntanlega einhverjar breytingartillögur gerðar því samhliða. En í því skyni langar mig aðeins að fara yfir breytingar og aðkomu sérfræðinga að málinu. Það er í mínum huga augljóst, og vissulega í hugum margra sérfræðinga, að eftir hrun var í samfélaginu almennt mikið vantraust gagnvart sérfræðingum, lögfræðingum, stjórnmálamönnum, hagfræðingum og meira og minna öllum fræðingum sem á hafði verið hlustað á árunum þar á undan. Það vantraust var mjög skiljanlegt í ljósi þess áfalls sem hafði dunið yfir þjóðina. Þessu fylgdi þó því miður sú óheppilega nálgun margra að útiloka einfaldlega allt sem sérfræðingar sögðu. Þetta hefur því miður haft þau áhrif á sérfræðinga síðan þá að þeir telja sig ekki velkomna inn í umræðuna og líta svo á að ekkert sé á þá hlustað. Að hluta til er það því miður rétt. Það er fólk sem berst fyrir nýrri stjórnarskrá sem hlustar ekki á sérfræðinga vegna þess að þeir eru sérfræðingar. Það hefur verið þannig í gegnum tíðina og er því miður enn að einhverju leyti en sem betur fer, að mínu mati, sífellt minna og minna.

Í öðru lagi verður að taka fram að víst hefur verið hlustað á sérfræðinga. Hlustað var á sérfræðinga þegar stjórnlagaráð kom saman. Það var hlustað á þá þegar frumvarpið var lagt fram á Alþingi. Það var hlustað á þá þegar það fór fyrir þingnefnd Alþingis, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, og sömuleiðis erlenda sérfræðinga í Feneyjanefndinni o.s.frv. Hlustað hefur verið á fullt af sérfræðingum. Margar athugasemdir hafa verið innleiddar í plaggið og sjást í því eins og það birtist okkur hér og nú.

Aftur á móti er málið ekki enn klárað, eins og við vitum, og eflaust er meira sem má breyta. Eðli málsins samkvæmt er fólk ekki sammála um nákvæmlega hvað það eigi vera eða á hvaða forsendum það skuli gert. Það sem við ættum þó að geta sagt okkur er að þegar við gerum breytingar á Alþingi eigum við ekki, megum ekki og eigum ekki að dirfast að draga úr biti aðhaldsákvæða eða draga úr getu ákvæða sem eru hugsuð til þess að verja réttindi borgaranna. Það er hlutverk okkar hér að reyna að fínpússa málið aðeins, en hvað svo? Það er ekki alveg ljóst, virðulegi forseti. Það er ekki alveg ljóst hvað svo, þannig að ég lýsi því hér með yfir, einhverju sem ætti reyndar að vera augljóst, að það er í sjálfu sér allt opið um það hvernig við komum á frekari breytingum í samráði við sérfræðinga og almenning. Þar kemur margt til greina og að mínu mati ekkert heilagt. Það er ekki sjálfgefið að hér fari frumvarpið einfaldlega í gegn og aftur á næsta kjörtímabili og málið verði klárað. Hvers vegna ekki nýtt stjórnlagaþing, eða ríkari aðkomu almennings að breytingunum? Ég teldi það mjög eðlilegt. Ég tel algerlega nauðsynlegt að lokaplaggið fari fyrir dóm kjósenda með bindandi hætti á einhvern hátt en ég hef ekki útfærsluna hér því að við erum ekki alveg komin þangað. Ástæðan fyrir því að við erum ekki komin þangað er sú að það er fólk sem stendur í vegi fyrir starfinu í sjálfu sér, ekki bara vegna þess að það hefur efnislegar athugasemdir sem gæti verið þess virði að taka tillit til heldur vegna þess að það er á móti nýrri stjórnarskrá, það er á móti því að breyta stjórnarskrá að einhverju verulegu leyti og hefur fyrir því fjölbreyttar ástæður. Sumar eru einföld íhaldssemi og ekkert annað.

Hvað sem því líður verður grundvallarhugsun okkar gagnvart nýrri stjórnarskrá að vera lýðræðið, aðkoma almennings. Það er almenningur sem á þessa stjórnarskrá. Við verðum að bera virðingu fyrir því á Alþingi við meðferð málsins og það kemur fólki við hvernig við breytum málinu efnislega, á hvaða hátt. Við getum ekki gert það bara hvernig sem er, ef það á að vera með siðferðilegum hætti. Þegar búið er að segja að 10% kjósenda geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál þá eigum við að halda okkur við þau 10%. Við eigum ekki að hækka hlutfallið bara af því að okkur finnist það óþægilega lágt. Það væri ekki málefnalegt, virðulegur forseti, og að mínu viti ekki siðferðilega réttlætanlegt. Svo mætti fjalla um nokkur ákvæði sem hafa verið til umræðu.

Sömuleiðis virðist aldrei alveg síast inn sá punktur sem er þó hamrað svo mikið á: Hver er stjórnarskrárgjafinn? Virðulegi forseti. Það er þjóðin. Við hérna inni verðum að trúa því. Í því felst að þegar kjósendur ákveða með mjög afgerandi hætti árið 2012 að sett skuli ný stjórnarskrá á grundvelli vinnu stjórnlagaráðs þá eigum við að fylgja því hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ef við höfum athugasemdir er fínt að koma fram með þær athugasemdir og breytingartillögur, til þess að ná því fram. Ef okkur finnst eitthvert ákvæði hættulegt eigum við að koma með tillögu að því að breyta því þannig að það sé ekki hættulegt, til þess að ná málinu fram, ekki til þess að stöðva það og ekki til að tefja fyrir. En það var gert og það er ólíðandi. Það er algjörlega ólíðandi í lýðræðisríki.

Hér reyni ég ekki að græða neina kjósendur, virðulegur forseti. Hér reyni ég að höfða til samvisku hv. þingmanna og stjórnmálamanna á Íslandi. Ég er sjálfur ekki sammála öllu í þessu frumvarpi. Ég efast um að það sé sála á Íslandi sem er sammála öllu í frumvarpinu, eða þá gildandi stjórnarskrá. Það er eðlilegt. En það er samt skylda okkar að fylgja þjóðarviljanum og koma á þeim breytingum sem við viljum koma á, og sannfæra almenning. Það ætti ekki að vera svo ógurlega mikið vandamál fyrir stjórnmálamann, myndi ég halda.

Þetta mál er lagt fram í þeirri mynd sem það er í dag óbreytt efnislega, þ.e. efnistextinn sjálfur er óbreyttur frá framhaldsnefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá 2013. Ástæðan er sú að það þarf að vera eitthvert skýrt ferli í kringum það hvernig því er breytt. Vinnan var komin á þann stað þegar henni lauk 2013 og þess vegna höldum við áfram með hana þaðan í dag, með framlagningu þessa frumvarps.

Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fór ágætlega yfir það hvernig greinargerðin er gerð aðeins skýrari núna með tilliti til 35. gr. um auðlindir, þ.e. fullt gjald á móti eðlilegu gjaldi. Eða eins og ég myndi orða það: Fullt gjald er í frumvarpinu. Eðlilegt er að taka fullt gjald að meginreglu, samanber greinargerð og vísa ég til hennar til nánari umræðu um það. Ég vona vissulega að málið komi til 2. umr. á þingi þannig að við getum rætt það atriði í lengra máli. Það er sjálfsagt að mínu mati að skýra efnisákvæðið sjálft betur með tilliti til þess sem kemur fram í greinargerðinni í dag.

Ég verð að fjalla aðeins um stjórnarskrárformannanefnd hæstv. forsætisráðherra sem hefur verið starfandi á þessu kjörtímabili og ég hef tekið þátt í fyrir hönd Pírata. Þar sem við höfum ekki formann var ég fenginn af þingflokki Pírata til þess að vera í þeirri nefnd. Ég verð að segja að frá upphafi fór ég inn í það starf, og ég vil meina allir sem komu að því, alla vega svo ég viti, með fullan hug á því að leiða starfið til lykta. Við vorum kannski ekki öll voðalega vongóð um að niðurstaðan yrði sú sem við vildum sjálf en unnum vissulega með þeim hug að reyna það í það minnsta og gera það af heilindum og heilum hug, með því markmiði. Lýsti ég því markmiði margoft, að ég liti svo á að starfið fæli í sér heildarendurskoðun, á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs m.a. Því miður er reynslan sú á þeim tíma sem er liðinn, þessum þremur árum eða svo, að það er ekki verið að því, virðulegi forseti. Við stungum upp á því í upphafi að í stað þess að taka fyrir kafla gildandi stjórnarskrár og vinna með þá myndum við vinna með kafla frumvarps stjórnlagaráðs. Við stungum upp á þessu en því var hafnað. Ég vil meina að ef við hefðum farið slíka leið þá værum við með önnur frumvörp í dag. Við hefðum beitt öðrum vinnubrögðum. Það er nálgunin sem okkur ber skylda til að fara eftir sem stjórnmálamönnum eftir 2012, að byggja vinnuna á frumvarpi stjórnlagaráðs. Við þurfum ekki að vera sammála. Þetta er ekki trúarrit og það má breyta hlutum þegar það er nauðsynlegt eða skynsamlegt með tilliti til og að gefnu almenningssamráði og því að það sé til að auka frekar en draga úr lýðræðisvinklum eins og aðhaldi með stjórnvöldum eða réttindum borgaranna.

Ég er vanur því eftir þessa fundi, verð ég því miður að segja, að tillögur mínar og annarra sem hafa verið þarna hafa verið hunsaðar. Mér líður eins og við höfum verið boðuð á fundi til þess eins að það hafi verið boðað til fundar. Svo býr hæstv. ráðherra, væntanlega í slagtogi við sérfræðinga og aðra aðila sem ég veit ekki hverjir eru nákvæmlega, til þessi frumvörp, kemur með einhverjar tillögur, ég segi mitt á fundunum og svo kemur tillagan ýmist óbreytt eða algerlega án tillits til athugasemda minna eftir á. Ég veit að fleiri í þessari nefnd eru sama sinnis. Ég tala bara fyrir sjálfan mig og þess vegna nota ég fyrstu persónu eintölu.

Eins og var farið yfir áðan er ekki að sjá í frumvörpunum sem hæstv. forsætisráðherra hyggst leggja fram að byggt hafi verið á almenningssamráði, sem þó var farið í. Það er margt gott að segja um það almenningssamráð en rétt eins og með almenningssamráðið frá 2012 er það alltaf háð því hvað stjórnmálamönnunum sýnist. Mér finnst svo leiðinlegt við íslenska stjórnmálamenningu að það þyki einhvern veginn í lagi.

Nú er Brexit ekki eitthvað sem ég hefði greitt atkvæði með hefði ég búið í Bretlandi á þeim tíma en það verður að nefna að þar datt varla neinum í hug að stinga upp á því að svíkja kjósendur um það sem búið var að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um. Þvert á móti lögðu stjórnmálamenn sem voru á móti Brexit, á móti því að yfirgefa Evrópusambandið, sig alla fram við að gera það besta sem var hægt úr stöðunni. Það er ábyrgð, virðulegi forseti. Við þurfum ekki að vera sammála því en við þurfum að hafa á hreinu hver það er sem ræður í þessu landi og hver það er sem er stjórnarskrárgjafinn. Í tilfelli Íslands fullyrði ég að það sé þjóðin en ekki við á Alþingi.

Hvað verður í framhaldinu? Sérfræðingar hafa lagt fram ýmsar athugasemdir. Ég hef ekki komist í að kryfja þær allar til mergjar. Ég vona að það takist í þessari umferð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, milli 1 og 2. umr. Ég geri fastlega ráð fyrir því að málið fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. Ég geri fastlega ráð fyrir blaðaskrifum, rökræðum, meiri aðkomu sérfræðinga og meiri aðkomu almennings. Ég geri fastlega ráð fyrir því. Það er ekkert meitlað í stein. Á sínum tíma var það líka opið, nánara samráð við almenning, en ekki varð úr því vegna þess að málið stöðvaðist í þingsal sökum málþófs.

Hugmyndum um nýtt stjórnlagaþing hefur verið varpað fram í ýmsum samtölum. Hægt væri að greiða úr ýmsum athugasemdum sem komu fram á sínum tíma um það hvernig að því var staðið en þá þarf að leggja það til og þá þurfa stjórnmálamenn að nálgast málið með því hugarfari að það eigi að klára það. Ekki með því að stöðva það eða tefja það heldur með því að bæta það. Því að andstætt því sem sumir íhaldssamari andstæðingar stjórnarskrármálsins vilja meina er þetta stjórnarskrá fyrir okkur öll, til að vernda réttindi okkar allra, fyrir lýðveldið allt.

Virðulegur forseti. Það var svo falleg saga sem var sögð af Íslandi eftir hrun að sumu leyti. Það var svo margt að gerast sem var flott og til fyrirmyndar. Því miður var meira af því en maður myndi vilja byggt á von og væntingum frekar en orðnum hlut. Stjórnarskrármálið er einn af þessum hlutum. Við ætluðum að verða best í tjáningar- og upplýsingafrelsi og við hefðum alveg getað orðið það og getum það hugsanlega enn. Og við ætluðum að gera þetta, klára lýðveldisstofnunina, virðulegi forseti, og við getum það víst saman.