151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

greiðara aðgengi að meðferðarúrræðum á sjúkrahúsinu Vogi.

50. mál
[16:31]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið, (Gripið fram í.) en ég ætla samt að koma hér upp og lengja hana örlítið. Klassísk viðbrögð. Mér rennur blóðið til skyldunnar að dásama SÁÁ og þá frábæru starfsemi sem á sér stað á Vogi og eftirmeðferðarstofnunum SÁÁ. Það er algerlega frábært starf sem unnið er hjá þessum samtökum og það er auðvitað gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið okkar að það séu aðilar sem séu tilbúnir að taka að sér svona mikilvæg verkefni, eins og SÁÁ í þessu tilfelli.

Við getum auðvitað nefnt fleiri slík dæmi, fleiri aðila sem reka mikilvæga velferðarþjónustu eða heilbrigðisþjónustu. Í þessum málaflokki er t.d. hægt að nefna Hlaðgerðarkot og Krýsuvík o.fl. Ég veit að þar er um eftirmeðferðir að ræða, ekki afeitrun. Ég ætla að byrja á að segja að ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir heilbrigðiskerfi okkar að hafa svona öflugar stofnanir sem eru tilbúnar að létta á þunganum. Það er að sjálfsögðu líka afeitrun og meðferðarúrræði hjá Landspítalanum.

Ég ætla þó að segja að ég er sammála hv. þm. Helgi Helga Hrafni Gunnarssyni hvað þetta varðar, að mér finnst eitthvert stílbrot á því að leggja fram þingsályktunartillögu sem fjallar sérstaklega um eitthvert eitt sjúkrahús eða einhvern einn rekstraraðila. Ég myndi gjarnan vilja að gerð væri aðgerðaáætlun og möguleikar á til að mynda liðskiptaaðgerðum skoðaðir. En ég myndi væntanlega ekki mæla fyrir þingsályktunartillögu sem gengi bara út á það að fjölga eða bæta aðgengi sjúklinga að liðskiptaaðgerðum hjá Klíníkinni þótt ég telji að Klíníkin gæti verið risastór viðbót inn í þann málaflokk og létta á þeim mikla þunga sem þar er.

Það er í rauninni bara það sem ég vildi segja. Ég held að markmiðið sem slíkt sé mjög gott og það er vandamál fyrir hendi. Það er verkefni okkar að auka aðgengi fíkla að meðferðarúrræðum. Það markmið get ég heils hugar tekið undir að sé verðugt. En ég held að það sé réttara að ef slík ályktun færi út úr þessum sal yrði því beint til heilbrigðisráðherra að vinna almennt á þeim vanda með fleiri stofnanir og aðila undir. Það eru aðilar sem komið hafa fram í fjölmiðlum núna og vilja opna sjúkrahús sambærilegt því sem er á Vogi. Ég held að það væri besta mál ef fleiri kæmu inn á þennan vettvang til að leysa vandann sem er til staðar. En auðvitað þarf alltaf að gera gæðakröfur og SÁÁ og Vogur standast þær gæðakröfur, enda hafa þau verið að störfum mjög lengi.