151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða hjúkrunarheimila.

[15:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Gerum frekar of mikið en of lítið. Þetta sögðu stjórnvöld í fyrstu Covid-bylgjunni og það má hrósa þeim fyrir að hafa að mörgu leyti staðið við það þótt vissulega megi gagnrýna sitthvað eins og við í Viðreisn höfum gert samhliða stuðningi við góð mál. Þegar staða hjúkrunarheimila, þess mikilvæga hlekkjar í heilbrigðisþjónustunni okkar, er skoðuð virðist einsýnt að þau hafi fallið á milli skips og bryggju, því miður. Ég er ekki að tala um þá staðreynd að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur rekstrargrunnur hjúkrunarheimila verið markvisst skertur frá ári til árs, þvert á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Því samtali, sem ég hef reyndar allnokkrum sinnum átt við hæstv. heilbrigðisráðherra í þingsal, verður haldið áfram síðar, m.a. við afgreiðslu fjárlaga næsta árs. En ég er hér að vísa í þau fyrirheit ríkisstjórnarinnar að gera frekar of mikið en of lítið. Og spurningin er: Af hverju ná þau fyrirheit ekki til hjúkrunarheimilanna? Hvernig stendur á því að stjórnvöld tryggja ekki getu þeirra til að sinna sínu mikilvæga starfi á þessum erfiðu Covid-tímum? Það þarf ekki að orðlengja hér um það álag sem faraldurinn hefur haft á starfsfólk hjúkrunarheimila sem og heimilisfólk og aðstandendur. Í ofanálag er staðan sú að heimilin búa við skertar greiðslur því að þau hafa þurft að fækka rúmum. Í öðru lagi búa þau við aukinn kostnað, líka vegna sóttvarnaráðstafana, og í þriðja lagi hefur starfsfólk ekki fengið sérstakar álagsgreiðslur sem stjórnvöld greiddu starfsfólki á ríkisreknum heilbrigðisstofnunum. Hér, herra forseti, stendur ef til vill hnífurinn í kúnni.

Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og forstjóri Grundar, segist í nýlegri grein sinni þeirrar skoðunar að þetta sé gert til að svelta öldrunarheimilin svo þau gefist upp og skili rekstrinum til ríkisins. Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri þessara sömu samtaka, spyr í annarri grein hvort þessi staða endurspegli fordóma stjórnvalda gegn hjúkrunarheimilum og öldruðum. Ég spyr: Hver er skýring hæstv. heilbrigðisráðherra á stöðunni?