151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða hjúkrunarheimila.

[15:22]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það er þá ljóst að hér er um að ræða fullkominn storm í vatnsglasi af hálfu rekstraraðila hjúkrunarheimila, eða hvað? Ég get ekki skilið svör hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að þetta sé allt frágengið. Mig langaði hins vegar aðeins, þó að áherslan hér hafi ekki verið á annað en Covid, að nefna þá vinnu sem nú er í gangi, sem er mjög jákvæð, en ég minni á að slík vinna hefur átt sér stað áður án þess að það hafi haft áhrif á innspýtingu í rekstrargrunn, síðast 2016 ef ég man rétt. Þannig að sá fugl er nú aldeilis ekki — nú man ég ekki einu sinni orðatiltækið sem ég ætlaði að nota — í hendi. (Forsrh.: Hann er floginn.) Hann er floginn. En þetta er alvörumál.

Varðandi Covid þá skil ég vel að þessar skýringar svíði en þær eru engu að síður viðhafðar af þeim sem standa í miðju stormsins akkúrat núna. Sé það svo að þessir rekstraraðilar séu allir fullmeðvitaðir um að þessar 500 milljónir séu bættar, plús álag á heilbrigðisstarfsmenn innan hjúkrunarheimilanna, og það séu ekki nema tveir mánuðir í að þeir peningar komi, (Forseti hringir.) þá vona ég að þeim verði gefið það svigrúm að viðhalda stöðunni þangað til og gera upp sín mál þá, án þess að þurfa að grípa til skerðinga. Ég fagna því ef svo er.