151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Góð kjördæmavika er að baki. Þar gafst okkur þingmönnum færi á að heimsækja sveitarstjórnarfólk og heilbrigðisstofnanir, og í mínu kjördæmi er Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri. Allt fór þetta fram með rafrænum hætti í Zoom og það er ótrúlegt hvað fólk er fljótt að aðlagast þeim breytingum og nýta sér það tækifæri að hittast þrátt fyrir að mega ekki hittast. Það var líka mjög ánægjulegt að fá staðfestingu á því að mikil innviðauppbygging er í gangi í mínu kjördæmi sem og í öðrum. Það á jafnt við um vegaframkvæmdir, hafnarframkvæmdir, styrkingu flutningskerfis raforku og ljósleiðaravæðingu, og unnið er að þrífösun rafmagns sem dæmi í þeim efnum.

Að sjálfsögðu hafði fólk áhyggjur af ýmsu eins og rekstri sveitarfélaga í ljósi Covid og af lægri framlögum úr jöfnunarsjóði í þeim sveitarfélögum sem treysta mikið á þær tekjur til að sinna grunnþjónustu fyrir íbúa sína. Ég tek undir það að þar verður ríkið að koma með fjármuni svo að hægt sé að sinna lögbundinni þjónustu við íbúa. Með samkomulagi ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem var gert á dögunum, verður fjármunum forgangsraðað til þeirra sveitarfélaga sem hafa orðið verst úti í tekjusamdrætti vegna þeirrar efnahagskreppu sem við glímum við núna. Hjúkrunarrými voru mikið til umræðu og brýnt er að fá niðurstöðu starfshóps í þeim efnum, um rekstrarforsendur þeirra og mismunandi rekstrarform, ekki síst þeirra litlu sem eiga í vanda. Ánægjulegt var að heyra áhuga margra í mínu kjördæmi á miðhálendisþjóðgarði og að hann myndi skapa tækifæri og atvinnuuppbyggingu í framhaldinu.

Við erum á réttri leið þó að við séum að glíma við erfiðan vanda í ljósi Covid og það eru ýmsir stórir áfangar, eins og opnun Dýrafjarðarganga, sem eru mikið gleðiefni á þessum tímum.