151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

biðlistar eftir úrræðum fyrir börn með geðheilbrigðisvandamál.

[13:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir með málshefjanda og hæstv. heilbrigðisráðherra um mikilvægi geðheilbrigðis og að geðheilbrigði sé ein af grundvallarforsendum heilbrigðis almennt. Einstaklingar sem hafa góða geðheilsu finna fyrir andlegri vellíðan sem gerir þeim kleift að nýta hæfileika sína og blómstra í lífi og starfi. Ég tel mikilvægt að beina sjónum að uppvaxtarskilyrðum barna, að þar séu sóknarfæri til að efla geðheilsu einmitt til þess að mikilvæg þjónusta við börn sé veitt snemma til þess einmitt að sem fæstir þurfi að nýta þá þjónustu sem hér hefur verið spurt um biðlista vegna. Þess vegna finnst mér mikilvægt að það sé verið að vinna að innleiðingu geðræktar- og forvarnastarfs í leik- og grunn- og framhaldsskólum og að heilbrigðisráðuneytið sé að kalla eftir tilnefningum í stýrihóp til að halda utan um þau mál.

Á upplýsingafundi almannavarna í gær var verið að ræða um líðan barna og ungmenna. Þar fannst mér Anna Steinsdóttir, tómstunda- og félagsmálafræðingur, koma með frábæra ábendingu þar sem hún benti á að foreldrar þyrftu að gæta að sinni eigin geðheilsu og ekki síður að því að vera ekki leiðinlegir. Þetta skiptir einmitt máli fyrir uppvaxtarskilyrði barna. Við þurfum að hafa samfélagsgerð sem styður við foreldra til þess að geta hugsað vel um börnin sín. Þess vegna skiptir það máli að lengja fæðingarorlofið. Þess vegna skiptir það máli að afkoma barnafjölskyldna sé almennt góð. (Forseti hringir.) Þess vegna skiptir það máli að allir foreldrar hafi aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu því að þannig stuðlum við að góðum skilyrðum fyrir börn (Forseti hringir.) og þannig að góðri geðheilsu þeirra.