151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[14:33]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að fylgja eftir framsögn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um þessa þingsályktunartillögu um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar. Við erum öll þingmenn Miðflokksins á þessu máli og þar á meðal sá sem hér stendur. Þetta er stórt og brýnt mál til að efla og byggja undir landbúnað og koma honum á þann stað sem honum samrýmist. Ég er þingmaður í Norðvesturkjördæmi sem er mikill landbúnaðarlandshluti og þar eru miklir möguleikar til áframhaldandi uppbyggingar á landbúnaði ef aðstæður leyfa. Vítt og breitt um kjördæmið er mjög fjölbreyttur landbúnaður. Við vorum á fundi nokkrir þingmenn með Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri nú á dögunum og það var mjög gleðilegt og hvetjandi að vera á þeim fundi og finna hvað skólinn er að gera góða hluti í námi fyrir þá nemendur sem hyggjast verða bændur, sama í hvaða tegund búskapar það er. Þar er mikill undirtónn í eflingu grænmetisframleiðslu og eru mjög spennandi tímar fram undan.

Mig langaði aðeins að drepa á nokkur atriði sem koma fram í þessari tillögu sem inniheldur, eins og kom fram hjá frummælanda, 24 atriði. Langar mig að minnast fyrst á atriði nr. 7 þar sem kemur fram að tollasamningi landbúnaðarráðherra frá 2015 við Evrópusambandið verði sagt upp nú þegar eða óskað eftir endurskoðun á honum með tilliti til útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þetta er náttúrlega eitthvað sem hlýtur að þurfa annaðhvort að endursemja eða segja upp, þessum samningi, vegna þeirra breytinga sem liggja fyrir.

Seinna í greinargerðinni er fjallað um eftirlitið hér heima en í ljós hefur komið að eftirlit með innflutningi á matvörum er brogað. Sá sem hér stendur var með þetta í sérstakri umræðu um daginn og var það mjög góð umræða og er vonandi verið að kítta upp í þau göt eða þær rifur sem hafa myndast við mjög mikið misræmi á matvælaflutningi, á því sem flutt er út frá Evrópu og því sem kemur heim til Íslands.

Það segir líka að innflutningur á ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum matvælum verði stöðvaður vegna sérstöðu landsins og mikilvægis matvæla- og fæðuöryggis. Það hefur oft komið til tals þetta með ófrosna kjötið og eggin vegna heilnæmis og er óþarft að ræða það mikið frekar hér. Það ætti að vera hverjum manni ljóst að við getum alveg séð um okkar framleiðslu til neyslu hér heima án þess að flytja þetta inn með þessum hætti sérstaklega. Svo segir hérna að ráðist verði í rannsóknir á notkun innlendra náttúrlegra hráefna, svo sem þörunga og kalks, til áburðarframleiðslu. Þarna er tekin fram þörungaöflun og þörungaframleiðsla þar sem miklir möguleikar eru fyrir hendi og eru menn að undirbúa það. Því þarf að vinna þessa vinnu við rannsóknir, að koma þessum atvinnuvegi á fæturna.

Svo er það þetta gamla góða, afhendingaröryggi raforku, að það verði tryggt svo að hætta á röskun á framleiðslu matvæla um land allt verði sem minnst. Einhverra hluta vegna hefur okkur ekki gengið vel að tryggja afhendingaröryggi raforku svo vel sé og sást síðast einna best í vonda veðrinu í janúar síðastliðnum þegar mikill hluti Norður- og Vesturlands varð rafmagnslaus og á Vestfjörðum. Eru þar atriði sem mörg hver þyrftu ekki að vera í ólagi vegna þess að þetta er það gamall búnaður sem var að klikka þarna, t.d. yfirbygging á tengivirkjum. Það er mjög einfalt í mínum huga að framkvæma en það er ekki búið að laga það alls staðar núna, ætti ekki að vera stórmál.

Síðan er það samkeppnishæfni innlends landbúnaðar gagnvart erlendri framleiðslu sem ætti að vera með frekari nýtingu innlendra orkuauðlinda og veita tilslakanir á samkeppnishömlum í landbúnaði til samræmis við tillögur þingmanna úr Miðflokknum sem mælt var fyrir á 147. löggjafarþingi, sem var mjög gott mál.

Tíminn líður hratt og ég kemst ekki yfir þetta allt en ég var líka búinn að haka við heimaslátrun, að hún sé leyfð, það sem er kallað örsláturhús. Þetta er eitthvað sem er búið að vera mikið til tals í þinginu en hefur ekki náð lendingu, er alltaf í einhverjum farvegi. Þetta er ekki stórmál heldur í raun bara mál vegna EES-reglugerðar. Síðan þegar menn fara út í Evrópu og kaupa sér það kjöt sem er best og fínast þá er það jafnvel af heimaslátruðu, þannig að við virðumst vera kaþólskari en páfinn í því að fara eftir slíkum reglugerðum og í þessari reglugerð er aðallega verið að horfa til eftirlits dýralækna á þessu sviði. Ég hef þá trú að ef heimaslátrun eða örsláturhús, eða hvað sem við köllum það, komast á koppinn og verða almenn úti um héruð landsins þá efli það sjálfstæði bænda í því að framleiða matvæli sín. Þau verða rekjanleg og neytandinn sér frá hvaða bónda þetta kemur og bóndinn er svolítið ábyrgur fyrir því hvað hann er að fá fyrir vöru sína, þetta er beint frá býli dæmið. Ég hef mikla trú á því að ef þetta kæmist meira til verka myndi það efla sjálfstæði og sjálfsvirðingu bænda og auka tekjur um leið.

Að lokum þá er oft talað um að matur sé mjög dýr á Íslandi en hér stendur í greinargerð:

„Ein helsta rangfærsla í umræðu um matvæli hér á landi er sú að íslensk matvæli séu dýr í samanburði við nágrannalöndin. Ef gerður er réttur og sanngjarn samanburður (með tilliti til launa, aðbúnaðar dýra, gæða, hollustu, lyfjanotkunar o.fl.) á framleiðslu íslenskra matvæla má hæglega komast að þeirri niðurstöðu að verð þeirra sé ekki ósanngjarnt, heldur þvert á móti.“

Þannig að þetta tal um að íslenskur landbúnaður sé dýr á ekki við rök að styðjast. Það bara sýnir sig þegar maður fer út í búð að svo er ekki.

Hæstv. forseti. Af því að ég var að tala áðan um eftirlit með tollum þá vil ég minna á skýrslubeiðnina sem var samþykkt áðan með öllum greiddum atkvæðum um úttekt á starfsemi Skattsins við framkvæmd tollalaga. Það er afar brýnt að það mál komist á hreint.