151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[15:26]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar trúar að Íslendingum og hagsmunum okkar sé betur borgið í fjölþjóðasamstarfi en í því að gera tvíhliða samninga við t.d. Bandaríkin eða Bretland, eins og núna, af því að það kemur í ljós að það er betra og meiri styrkur að vera með fleirum en að vera litli aðilinn á móti stórum. Við sjáum alveg hvernig málum vindur fram í samskiptum Bretlands og Bandaríkjanna, til að mynda á sviði landbúnaðarafurða þar sem Bandaríkin þrýsta mjög á það að Bretar hleypi inn í stórum stíl hormónakjöti frá Bandaríkjunum. Það er eitt af þeim skilyrðum sem Bandaríkjamenn hafa verið að setja fram í fríverslunarsamningum við Breta. Það er mín trú að íslenskum hagsmunum, þar með talið innan landbúnaðar, sé betur borgið í slíku sterku fjölþjóðasamstarfi frekar en við séum að semja í tvíhliða fríverslunarsamningum. En það er önnur saga.

Varðandi grænmetið er alveg rétt hjá hv. þingmanni að á síðustu misserum hefur þrengt aftur að því en ég er sannfærð um það að á sínum tíma var þetta rétt skref með grænmetið og grænmetisbændur og hvernig við opnuðum fyrir innflutning á grænmeti gegn því að veittir voru meiri beinir styrkir í ákveðnu grænmeti. Það leiddi til nýsköpunar. Það leiddi til nýrrar hugsunar. Við sáum það alveg. Það er kominn tími til að mínu mati, ég tek undir það með hv. þingmanni, að við endurskoðum fleiri skref í þá veru og hlustum á það sem grænmetisbændur hafa verið að óska eftir, að tollverndin verði þá einfaldlega verðmetin og það verði sett aftur í beina styrki á öðrum sviðum, eins og t.d. í paprikunni eða hugsanlega kartöflunum. Það eru ýmis tækifæri sem við höfum.

Það sem má ekki gerast er að við gerum ekki kröfu til okkar sjálfra um að breyta (Forseti hringir.) kerfinu þannig að það verði í áttina að þessum almennu leikreglum, samkeppni, frelsis, nýsköpunar og fjölbreytni.