151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

48. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um aukin atvinnuréttindi útlendinga ásamt hv. þingmönnum Ara Trausta Guðmundssyni, Kolbeini Óttarssyni Proppé, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Ólafi Þór Gunnarssyni og Steinunni Þóru Árnadóttur. Tillagan felst í því að hæstv. félags- og barnamálaráðherra skipi starfshóp sem geri tillögur um það hvernig auka megi atvinnuréttindi ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA og Færeyja. Hér eru tilgreindir nokkrir aðilar sem við teljum heppilegt að sitji í þessum hópi; Alþýðusamband Íslands, BSRB, BHM, Samtök atvinnulífsins og Samtök íslenskra sveitarfélaga, ásamt nokkrum ráðuneytum. Við leggjum til að tillögunum verði skilað eigi síðar en 1. júní á næsta ári og að ráðherra kynni Alþingi tillögurnar á komandi haustþingi 2021.

Lögin um atvinnuréttindi útlendinga frá 2001 gilda um heimild útlendinga til atvinnu hér á landi. Samkvæmt lögunum er meginreglan sú að útlendingar þurfa atvinnu- og dvalarleyfi til að starfa á innlendum vinnumarkaði en þó er gert ráð fyrir ákveðnum undanþágum frá þeirri reglu, annars vegar er um að ræða langtímaundanþágur frá atvinnuleyfi og hins vegar undanþágur frá atvinnuleyfi vegna skammtímavinnu.

Möguleikum ríkisborgara ríkja fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið, EFTA eða Færeyja, til að fá atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi er nokkuð þröngur stakkur skorinn í lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Vísbendingar eru um að fólk sem leitar hingað til lands í þeim tilgangi sjái sig því knúið til að fara aðrar leiðir inn á íslenskan vinnumarkað, svo sem með umsókn um alþjóðlega vernd. Nauðsynlegt er að boðið sé upp á ólíkar leiðir fyrir fólk í ólíkum aðstæðum til að setjast að hér á landi, hvort sem það er til skemmri eða lengri tíma. Telja verður að það verði ekki eingöngu þeim til bóta sem óska þess fyrst og fremst að koma hingað til að starfa heldur muni sú þekking og reynsla sem það fólk býr yfir auðga menningu okkar, efnahag og samfélag. Í ljósi þessara sjónarmiða telja flutningsmenn mikilvægt að hafin verði vinna við að kanna breytingar á atvinnuréttindum útlendinga til frambúðar.

Fólksflutningar hafa aukist mjög síðustu ár vegna ástandsins í heiminum eins og við þekkjum. Styrjaldir, borgarastríð, skert mannréttindi og loftslagsvá eru meðal þeirra þátta sem valda því að fólk leitar sér betra lífs annars staðar í heiminum. Það er því afar nauðsynlegt að ferlar séu skýrir og að fólk sem leitar hingað og vill setjast hér að hafi aðgang að réttum upplýsingum miðað við stöðu sína. Ekki falla allir sem hingað leita undir skilgreiningu um flóttafólk og það er mikilvægt að það fólk geti leitað annarra leiða en að sækja um alþjóðlega vernd vilji það búa hér og starfa.

Með tillögu þessari er félags- og barnamálaráðherra falið að skipa starfshóp sem á að móta tillögur um hvernig auka megi atvinnuréttindi og möguleika þá um leið til að setjast hér að. Starfshópurinn á að kanna hvaða lagabreytinga sé þörf á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og hvort þörf sé á frekari lagabreytingum, til að mynda á lögum um útlendinga frá árinu 2016, til að ná framangreindu markmiði og hvort aðrar leiðir séu færar. Við vinnu hópsins leggjum við til að það sé litið til löggjafar annarra ríkja og reynslu þeirra í þessu sambandi og auk þess gæta að samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Ólíkar leiðir að markmiðinu skulu metnar með tilliti til mögulegra áhrifa á vinnumarkað, samfélag og efnahag. Í þessu efni er mikilvægt að staðinn verði vörður um hið íslenska vinnumarkaðslíkan og að þau réttindi sem hafa áunnist á íslenskum vinnumarkaði í kjarasamningum og löggjöf verði tryggð þeim sem hingað koma til að starfa.

Nauðsynlegt er að samráð eigi sér stað við ólíkar starfsgreinar svo að hægt sé að koma til móts við mismunandi aðstæður meðal þeirra. Í þeim starfsgreinum þar sem gerðar eru tilteknar kröfur til menntunar eða hæfni skal þá horft til þess að þeir sem hljóta atvinnuleyfi uppfylli sambærileg skilyrði í þeim efnum og gerð eru hér á landi, t.d. varðandi lengd eða inntak menntunar. Í því samhengi mætti m.a. skoða hvort bjóða mætti upp á viðbótarnám svo að umsækjendur geti uppfyllt þau skilyrði. Mætti horfa til reynslunnar í Svíþjóð þar sem boðið hefur verið upp á stutt nám til að gera umsækjendum kleift að uppfylla skilyrði þar í landi.

Þá er mikilvægt að skoða hvort gera megi breytingar á því fyrirkomulagi að tímabundið atvinnuleyfi starfsmanns sé bundið við tiltekinn atvinnurekanda, enda leiðir það oft og tíðum til aukins aðstöðumunar milli atvinnurekanda annars vegar og starfsmanns hins vegar. Þar verður að telja aðkomu stéttarfélaga þýðingarmikla til að tryggja réttindi þess starfsfólks. Að auki er vert að taka til skoðunar rétt slíks starfsfólks í opinbera kerfinu, svo sem til atvinnuleysisbóta. Rétt væri einnig að kanna umhverfi vistráðninga og hvort gera þurfi breytingar á því kerfi til að hindra misnotkun þess. Og eins og áður sagði er gert ráð fyrir að hópurinn skili tillögum til ráðherra á miðju næsta ári, eða 1. júní.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir málið eins og það kemur af kúnni, eins og stundum er sagt. Í sjálfu sér er kannski óþarfi að lengja það eitthvað frekar. Við þekkjum hvernig þessi mál öllsömul hafa þróast. Eitt af því sem búið er að undirrita núna er breyting á reglugerð sem gerir erlendum ríkisborgurum utan Evrópska efnahagssvæðisins sannarlega mögulegt að dvelja örlítið lengur hér á landi en áður, t.d. til að stunda vinnu sína hjá erlendum fyrirtækjum í fjarvinnu. Það er kannski fyrst og fremst sprottið af þessu Covid-ástandi. Þar er auðvitað um dálítið annað að ræða en það sem þetta mál fjallar um. Við erum hér að fjalla um fólk sem hingað vill almennt koma til vinnu, að það þurfi ekki að vera undir þeim merkjum sem kannski eru í því máli sem var verið að undirrita hér á dögunum en sannarlega er þörf fyrir og kemur líka til með að skipta máli hér á atvinnumarkaðnum. Við þekkjum að það hefur auðvitað verið erfiðleikum háð að komast hingað inn, sækja um kennitölu, hvort sem maður er á landinu eða ekki o.s.frv. Það eru margir þröskuldar. Ég vona sannarlega að þessi hópur, sem hefur verið tilnefndur til að gera þetta, fái þetta mál til afgreiðslu, komist að einhverri niðurstöðu. Ég held að það sé löngu orðið tímabært að við tökum þann vinkil á þessi mál er varða útlendinga.