151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

48. mál
[18:47]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er kannski til of mikils ætlast að þingmaðurinn sé með tölurnar á hreinu. En eins og ég sagði þá er alveg til þess vinnandi að reyna að fara betur yfir þessi mál. Ég held að það væri kostur ef við gætum létt á hælisleitendakerfinu þannig að þeir sem þurfa á því að halda fái betri þjónustu og meiri möguleika á að þeir séu á réttum stað. En eins og þingmaðurinn nefndi þá er kannski annað í þessu og það er að bæta upplýsingagjöf fyrir fólk. Það er erfitt að koma úr annarri menningu og með allt annað tungumál og þurfa að fara að fóta sig í kerfinu. Það er oft og tíðum bara fullmikið fyrir okkur sem tölum íslensku, hvað þá fyrir aðra.

Mig langaði til að nefna það að mér þótti ræða þingmannsins hér á undan, Ara Trausta Guðmundssonar, einnig mjög efnismikil þegar hann fór yfir söguna og hvaða þekkingu við Íslendingar höfum fengið með því fólki sem hingað hefur komið, fyrst sem innflytjendur. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hún sé ekki sammála mér í því, kannski sérstaklega núna á svona erfiðum tímum efnahagslega, að meiri fjölbreytni og fólk með ólíkan bakgrunn og framlag til atvinnulífsins og menningarinnar geti akkúrat hjálpað okkur, lyft okkur upp og áfram inn í framtíðina. Við erum einnig að glíma við hækkandi hlutfall eldra fólks. Við þurfum að yngja upp og fá nýja þekkingu inn til okkar. Er þingmaðurinn ekki sammála því að það sé jákvætt fyrir Ísland?