151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[11:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. alþingismaður Albertína Friðbjörg Elíasdóttir vekur hér máls á afar mikilvægum þætti heilbrigðisþjónustunnar og ég þakka fyrir að fá að ræða um þjónustu sérgreinalækna við íbúa utan höfuðborgarsvæðisins.

Þingmaðurinn beinir til mín nokkrum spurningum. Sú fyrsta lýtur að stefnu ráðuneytisins varðandi veitingu þjónustu sérgreinalækna um land allt. Stefna ráðuneytisins varðandi þessa þjónustu birtist m.a. í heilbrigðisstefnu sem Alþingi hefur afgreitt og löggjöf á sviði heilbrigðismála sem sömuleiðis hefur verið afgreidd með breytingum frá Alþingi. Í heilbrigðisstefnu er lögð áhersla á jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Með markvissri uppbyggingu fjarheilbrigðisþjónustu og aukinni áherslu á skilvirka sjúkraflutninga skapast tækifæri til að veita góða heilbrigðisþjónustu um land allt og tryggja öryggi sjúklinga í hinum dreifðu byggðum landsins.“

Í lögum um heilbrigðisþjónustu hefur þrískipting þjónustunnar nú verið staðfest í samræmi við markmið stefnunnar; fyrsta stigs, annars stigs og þriðja stigs þjónusta einstaklinga. Fyrsta stigs þjónustan er þjónusta heilsugæslunnar sem er grundvöllur þjónustunnar, ekki hvað síst á landsbyggðinni. Annars stigs þjónusta felur í sér þjónustu sérgreinalækna en samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu er það hlutverk heilbrigðisstofnana að skipuleggja og veita fyrsta og annars stigs þjónustu, m.a. á dag- og göngudeildum.

Þingmaðurinn spyr í öðru lagi hvort ég sé sammála forstjóra Sjúkratrygginga Íslands um að hagkvæmara væri að semja við sérgreinalækna um að veita aukna þjónustu í heimabyggð. Einfalda svarið við því er: Já, en fyrir liggur að því fylgir mikill kostnaður, bæði beinn og óbeinn, þegar íbúar landsbyggðarinnar þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu til höfuðborgarsvæðisins eins og hér hefur verið nefnt. Hins vegar flækir stöðuna að móttaka sérgreinalæknis krefst oft samvinnu við aðra heilbrigðisstarfsmenn og aðgangs að flóknum tækjabúnaði sem er ekki aðgengilegur alls staðar. Þess vegna þarf að huga að því líka í þessu samhengi.

Fjarheilbrigðisþjónusta er örugg og hagkvæm leið við veitingu heilbrigðisþjónustu í strjálbýli. Slík þjónusta hefur t.d. verið veitt við veitingu þjónustu á Austurlandi með mjög góðum árangri.

Þingmaðurinn spyr í þriðja lagi hvaða leiðir ráðherrann telji vænlegastar til að tryggja þjónustu sérgreinalækna í heimabyggð og hvort til greina komi að skilgreina ákveðna sérgreinalæknaþjónustu sem nærþjónustu sem eigi að veita í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Í nýrri reglugerð um heilbrigðisumdæmi og hlutverk starfsemi heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa, sem sett er með stoð í lögum um heilbrigðisþjónustu og birt verður núna 17. nóvember, er sem sagt glæný, er kveðið á um að heilbrigðisstofnunum beri að leggja mat á þörf íbúa hvers heilbrigðisumdæmis fyrir heilbrigðisþjónustu og gera áætlun um það hvernig þeirri þörf skuli mætt. Þannig að með þeim skilningi í heilbrigðisstefnu og heilbrigðislögum að forstjóri heilbrigðisstofnunar sé í raun og veru framkvæmdastjóri eða umdæmisstjóri heilbrigðisþjónustu í sínu umdæmi þá eykst í raun og veru ábyrgð viðkomandi á tryggri og aðgengilegri þjónustu fyrir alla. En þá ber að líta til þess að þarfir íbúa heilbrigðisumdæma eru mismunandi eftir aldurssamsetningu íbúa og eftir samgöngum og fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, eða Eyjafjarðarsvæðinu ef því er að skipta. Þessi leið er vænlegasta leiðin að mínu mati, þ.e. að skilgreiningin fari fram í hverju heilbrigðisumdæmi fyrir sig.

Í fjórða lagi spyr hv. þingmaður hvort til greina komi að semja við Landspítalann um slíka þjónustu. Já, það kemur til greina og það hefur verið gert. Við höfum séð samninga við Landspítala sem einstök heilbrigðisumdæmi hafa gert og við Sjúkrahúsið á Akureyri, nú nýjast Heilbrigðisstofnun Austurlands sem gerði samning við Sjúkrahúsið á Akureyri um tiltekna þjónustu. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur gert samninga við Landspítala varðandi geðheilbrigðisþjónustu. Þjónustuna er í slíkum tilvikum hægt að veita bæði með reglubundnum komum sérfræðinga í heilbrigðisstofnanirnar eða með fjarheilbrigðisþjónustu eða með blöndu af þessu tvennu.

Þá er spurt hvenær standi til að ljúka samningum við sérgreinalækna. Því er til að svara að unnið er að samningagerð við þá lækna hjá Sjúkratryggingum Íslands og vonir standa til að hægt verði að ljúka þeirri vinnu sem fyrst. Á meðan starfa þessir læknar eftir reglugerð.

Í samhengi við umræðuefnið hér er mikilvægt að halda því til haga að heilbrigðisráðuneytið hefur sett fram skýr samningsmarkmið vegna samninga við sérgreinalækna og meðal þeirra markmiða er að í samningnum skuli tryggt að þjónusta lækna í ákveðnum sérgreinum verði í boði í öllum umdæmum og að þjónustuna skuli almennt veita óháð búsetu.

Að síðustu spyr hv. þingmaður hvort ráðherra telji að gert sé nægilega ráð fyrir kostnaði við að veita þessa þjónustu í fjárlögum. Þá er því til að svara að fjármögnun þjónustu sérgreinalækna á landsbyggðinni er veitt af rekstrarfé heilbrigðisstofnana, ýmist með ráðningu sérfræðinga eða kaupum á þjónustu frá annarri stofnun eða með sérstökum samningum milli SÍ og sérgreinalækna. Forstjórar heilbrigðisstofnana, sem jafnframt eru umdæmisstjórar í sínu heilbrigðisumdæmi, skipuleggja þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er í umdæminu í samræmi við stefnumörkun og slík annars stigs þjónusta er hluti af fjárhagsramma stofnananna.

Þá vil ég einnig benda sérstaklega á að heimildir á fjárlögum vegna samninga SÍ við sérgreinalækna hafa aukist verulega undanfarin ár eða úr tæplega 9,3 milljörðum 2016 (Forseti hringir.) í tæpa 12 á árinu 2020, þannig að verulegu fjármagni er í raun ráðstafað nú þegar til þjónustu sérgreinalækna.