151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

fjárhagslegar viðmiðanir.

312. mál
[15:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um fjárhagslegar viðmiðanir. Með frumvarpinu er lagt til að reglugerð Evrópusambandsins um vísitölur á fjármálamarkaði, sem hefur verið tekin upp í EES-samninginn, verði veitt lagagildi hér á landi. Greiðslur samkvæmt lánssamningum, afleiðum og öðrum fjárhagslegum samningum ráðast oft af þróun vísitalna sem eiga að mæla verðgildi á borð við vexti, gengi gjaldmiðla, virði hlutabréfasafna eða verð á hrávöru. Til dæmis er algengt að vextir af bankalánum jafngildi vísitölum sem eiga að mæla vexti milli banka með ákveðnu álagi. Hætta getur verið á að þeir sem taka saman slíkar viðmiðanir, eða þeir sem leggja til upplýsingar sem þær byggjast á, misnoti aðstöðu sína ef þeir hafa hag af því að þær þróist á tiltekinn veg. Bankar gætu t.d. hagnast á því að veita villandi upplýsingar um lánskjör sín í því skyni að hafa áhrif á viðmiðun sem á að mæla vexti milli banka ef vextir af lánum sem þeir hafa veitt byggjast á viðmiðuninni.

Eftir fjármálakreppuna 2008–2009 kom í ljós að alþjóðlegir bankar höfðu í hagnaðarskyni hagrætt Euribor-, Libor- og Tibor-vöxtum — þessi hugtök eru þekkt úr bankaviðskiptum, úr bankaheiminum. Þetta er vísan í ákveðin viðmið. Bankarnir höfðu sem sagt í hagnaðarskyni hagrætt þessum vöxtum sem eiga að mæla vexti milli banka á evrusvæðinu, í London og í Tókýó og liggja til grundvallar fjölmörgum samningum á fjármálamarkaði. Einnig lék grunur á um að viðmiðunum á gjaldeyris- og hrávörumörkuðum hefði verið hagrætt.

Reglugerð Evrópusambandsins er ætlað að taka á slíkum hagsmunaárekstrum og stuðla að áreiðanlegri viðmiðunum á fjármálamarkaði. Meðal annars er mælt fyrir um starfshætti aðila sem taka saman viðmiðanir, starfsleyfi, aðferðafræði við vinnslu viðmiðana og eftirlit. Hér á landi munu vísitölur sem Kauphöll Íslands hf. og fáein rekstrarfélög verðbréfasjóða og verðbréfafyrirtæki taka saman falla undir gildissvið gerðarinnar en ekki vísitölur sem Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands taka saman.

Virðulegi forseti. Undir lok síðasta árs var ákvæðum um viðmiðanir fyrir fjárfestingar með lítil eða jákvæð áhrif á losun koltvísýrings bætt við reglugerð Evrópusambandsins til að stuðla að áreiðanleika og frekari notkun slíkra viðmiðana. Var það liður í aðgerðum Evrópusambandsins til að ýta undir sjálfbærar fjárfestingar. Breytingin hefur verið tekinn upp í EES-samninginn og lagt er til að henni verði einnig veitt lagagildi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi eftirlit með því að farið verði að lögunum og geti beitt stjórnsýsluviðurlögum vegna brota gegn þeim. Lagt er til að ráðherra og Seðlabankanum verði heimilað að innleiða undirgerðir reglugerðarinnar, sem útfæra nánar einstök atriði hennar, með stjórnvaldsfyrirmælum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.