151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2020 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

216. mál
[14:27]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég flyt hér nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2020, um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn um flutningastarfsemi. Til að útskýra málið ætla ég að fá, með leyfi hæstv. forseta, að grípa aðeins ofan í þingsályktunartillöguna:

„Markmið reglugerðarinnar er að stemma stigu við þeirri hættu sem kann að stafa af því að flugverjar sinni störfum sínum um borð í loftfari undir áhrifum geðvirkra efna eða ef þeir eru ófærir um að sinna störfum sínum vegna meiðsla, þreytu, lyfja, veikinda eða af öðrum keimlíkum orsökum. […]

Í reglugerðinni er einnig fjallað um framkvæmd sálfræðimats á flugmönnum áður en þeim er heimilt að hefja störf og innleiðingu á stuðningsáætlun fyrir flugmenn sem ætlað er að styðja við og hjálpa þeim við að þekkja og bregðast við hvers konar vanda sem gæti haft áhrif á getu þeirra til að sinna störfum sínum af öryggi. Þá tiltekur reglugerðin einnig kröfur til landslagsgreiningarkerfis (e. terrain awareness and warning system) fyrir flugvélar sem eru með hámarksflugtaksmassa yfir 5.700 kg.

Efni reglugerðarinnar byggist að miklu leyti á viðbrögðum við Germanwings flugslysinu svonefnda sem átti sér stað árið 2015.“

Ég skýt því inn að mörgum er í fersku minni þegar flugmaður flaug viljandi vél fullri af farþegum í fjallshlíð. Ég held svo áfram stuttlega með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki er lagaheimild í núgildandi lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum, fyrir þeirri skimun fyrir geðvirkum efnum sem kveðið er á um í reglugerðinni. Sú lagaheimild verður fengin í nýjum loftferðalögum, en samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hyggst leggja fram frumvarp til nýrra loftferðalaga á 151. löggjafarþingi. Reglugerðin yrði í kjölfarið innleidd með breytingu á reglugerð um tæknikröfur og stjórnsýslureglur í tengslum við starfrækslu loftfara …“

Þetta er tilefni þessarar þingsályktunar og í nefndarálitinu frá utanríkismálanefnd segir, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gaut Sturluson frá utanríkisráðuneyti og Ólaf Hjörleifsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2020 frá 7. febrúar 2020 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/1042 frá 23. júlí 2018 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 965/2012 að því er varðar tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferðir er varða stuðningsáætlanir, sálrænt mat á flugáhöfn, sem og kerfisbundna og handahófskennda skimun fyrir geðvirkum efnum til að tryggja heilbrigði flugliða og öryggis- og þjónustuliða og að því er varðar uppsetningu á landslagsgreiningarkerfi í nýlega framleiddar flugvélar, knúnar hverfihreyflum með 5.700 kg skráðan hámarksflugtaksmassa eða minna og samþykktar hafa verið til að bera sex til níu farþega.

Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.“

Nefndin leggur því til að tillagan sé samþykkt eins og hún kemur fyrir. Þetta er dagsett 18. nóvember og undir skrifa Sigríður Á. Andersen formaður, Ari Trausti Guðmundsson framsögumaður, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Logi Einarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.