151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/2020 um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

220. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að gefa hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni smá pásu frá sínum mikilvægu störfum. Ég ætla að gera grein fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 83/2020, um breytingu á XI. viðauka. Þetta fjallar um rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gaut Sturluson frá utanríkisráðuneyti og Veru Sveinbjörnsdóttur frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 83/2020, frá 12. júní 2020 um breytingu á XI. viðauka, sem fjallar um rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið, og bókun 37, sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr. við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2019/517 frá 19. mars 2019 um að taka í notkun höfuðlénið .eu og hlutverk þess og um breytingu og niðurfellingu á reglugerð nr. 733/2002 sem og niðurfellingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 874/2004.

Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Því leggur nefndin til að hún verði samþykkt.

Nefndarálitið er dagsett 18. nóvember 2020 og undir það rita formaður nefndarinnar, hv. þm. Sigríður Á. Andersen ásamt framsögumanni, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, og hv. þingmönnum Bryndísi Haraldsdóttur, Gunnari Braga Sveinssyni, Loga Einarssyni, Njáli Trausta Friðbertssyni, Rósu Björk Brynjólfsdóttur, Silju Dögg Gunnarsdóttur og Þorgerði K. Gunnarsdóttur.