151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 165/2020 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

315. mál
[16:46]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er aðdáunarvert að heyra hvað forseti fer vel með tölur. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2017/1564 frá 13. september 2017, um tiltekna leyfilega notkun á tilteknum verkum og öðru efni sem er verndað af höfundarétti og skyldum réttindum í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun og um breytingu á tilskipun 2001/29/EB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu, verði felld inn í EES-samninginn.

Tilskipun 2017/1564 frá 13. september 2017 sem felld var inn í EES-samninginn með ákvörðun nr. 165/2020 hefur það að markmiði að samræma reglur Evrópusambandsins um sérstök leyfileg afnot verka og annars efnis í þágu einstaklinga sem eru blindir, sjónskertir eða prentleturshamlaðir við ákvæði Marakess-sáttmálans um að greiða fyrir aðgengi þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða glíma við aðra prentleturshömlun að útgefnum verkum. Sáttmálinn var samþykktur í Marakess 27. júní 2013 og er Evrópusambandið aðili að honum. Tilskipun 2017/1564 er alls 13 greinar og er markmið tilskipunarinnar sett fram í 1. gr. hennar þar sem segir:

„Þessi tilskipun miðar að frekari samræmingu á gildandi löggjöf Sambandsins um höfundarétt og skyld réttindi innan ramma innri markaðsins, með því að koma á reglum um notkun á tilteknum verkum og öðru efni án samþykkis rétthafa þeirra í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun.“

Þetta markmið er síðan nánar rætt í 1.–8. og 16.–18. formálsgreinum tilskipunarinnar.

Tilskipunin er liður í aðild Evrópusambandsins að Marakess-sáttmálanum, eins og að framan greinir. Með því að innleiða tilskipunina er jafnframt búið í haginn fyrir Ísland til að gerast aðili að sáttmálanum en ýmis hagsmunasamtök sjónskertra og leshamlaðra hafa óskað eftir að Ísland verði sem fyrst aðili. Gera þarf breytingar á höfundalögum. Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (takmarkanir á einkarétti höfunda til hagsbóta fyrir einstaklinga með sjón- og lestrarhömlun), 136. mál á 151. löggjafarþingi.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að aflokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til utanríkismálanefndar.