151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum opinberan stuðning við nýsköpun, mjög mikilvægt málefni. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans hér, sem var ágæt. Ríkisstjórnin segir í stjórnarsáttmála sínum frá 2017 um mikilvægi nýsköpunar:

„Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða …“

Þetta er allt mjög göfugt og hljómar vel. En síðan segir einnig í stjórnarsáttmálanum:

„Ríkisstjórnin mun vinna að því að skilyrði hér á landi fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki verði framúrskarandi.“

Svo segir einnig að hugvit einstaklinga sé mikilvægasta uppspretta nýsköpunar, og skal hér tekið heils hugar undir það.

Undir þessum orðum mætti ætla að ríkisstjórnin vilji efla starf hugvitsmanna og búa þeim viðunandi starfsumhverfi. Hugvitsmenn og frumkvöðlar hafa með sér tvenn hagsmunasamtök, SFH, sem stendur fyrir Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna, og KVENN, félag kvenna í nýsköpun. Þessi ágætu félög starfa í anda þeirra markmiða sem ríkisstjórnin og ráðherrar hennar setja sér í þessum tilvitnuðu yfirlýsingum sem ég las hér upp áðan. Þessi félög hljóta því að vænta þess að fá stuðning við verkefni sín frá ríkinu. Þau hafa sinnt margvíslegum og áhugaverðum verkefnum, m.a. fyrir öryrkja og Þroskahjálp og annað slíkt.

En málið er að þessum félögum hefur í tvígang verið synjað um styrki frá hinu opinbera. Framlögin voru mest árið 2013, en fóru síðan minnkandi, og árið 2017 hefur ráðuneyti nýsköpunar synjað þeim algerlega um styrki. Fyrir þessu liggur enginn rökstuðningur. Ég vil spyrja hv. þingmann, ég veit ekki hvort hann þekki málið sérstaklega, en er þetta ekki algjörlega á skjön við það sem hér hefur verið sagt og kemur sérstaklega fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?