151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:40]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina. Mig langar að spyrja aðeins út í boðaða breytingartillögu. Hv. þingmaður sagði, ef ég skildi rétt, að hún væri þannig að foreldrar gætu skipt með sér 12 mánuðum hvernig sem væri. Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður hafi engar áhyggjur af því að slíkt gæti orðið ákveðið bakslag í jafnréttisbaráttunni. Af þeim fjölmörgu umsögnum sem bárust í samráðsgátt mátti m.a. sjá umsagnir frá Kvenréttindafélagi Íslands þar sem segir, með leyfi forseta:

„Kvenréttindafélag Íslands fagnar sérstaklega að í frumvarpinu sé réttinum til fæðingar- og foreldraorlofs deilt jafnt á milli foreldra, réttarbót sem mun stuðla að bættri stöðu kvenna og auknu kynjajafnrétti hér á landi.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi engar áhyggjur af því að ef það er farið alla leið í þá átt að foreldrar geti skipt þessu hvernig sem er á milli sín, gæti komið umtalsvert bakslag í þessi mál. Kvenréttindafélag Íslands er ágætisheimild eða „átorítet“, afsakið, forseti, um þessi mál.