151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Já, ég hygg að rétt sé hjá hv. þingmanni að við þurfum að horfa mjög stórt á þetta mál. Það eru fáir viðburðir mikilvægari í lífi fólks en einmitt það að eignast barn og fyrstu mánuðir þess í lífinu. Hér hefur aðeins verið rætt um hver reynslan sé orðin og hvaða áhrif þetta geti haft og hvernig önnur skipting gæti orðið. Við erum aðeins farin að leika okkur með að velta fyrir okkur hvað gæti gerst.

Forseti. Önnur umsögn í samráðsgáttinni er frá fjölmörgum fræðimönnum í Háskóla Íslands þar sem m.a. er litið til annarra landa um reynsluna þaðan, með leyfi forseta:

„Spyrja má hvort tuttugu ára reynsla af töku orlofs feðra hafi ekki breytt hugarfari á þann veg að draga megi úr sjálfstæðum rétti án þess að það skerði orlofstöku feðra? Svarið er nei, ef marka má nýlega reynslu Norðmanna. Noregur var fyrst Norðurlanda til að lögleiða sérstakan rétt feðra til 4 vikna orlofs árið 1993. Árið 2014 ákvað ríkisstjórn undir forystu Ernu Solberg að draga úr þeim fjölda vikna sem feður áttu rétt á í fæðingarorlofi, úr 14 í 10 vikur. Afleiðingarnar voru þær að feður drógu umsvifalaust úr töku orlofs og því ákvað ríkisstjórn sömu flokka árið 2018 að fjölga orlofsvikum feðra aftur og nú í 15–19 vikur (eftir því hversu hátt hlutfall feður kjósa að fá greitt af fyrri tekjum […] Það var eins og við manninn mælt, um leið og réttur feðra jókst þá jókst orlofstaka þeirra aftur og hefur aldrei verið meiri en 2020.“

Þess vegna spyr ég, forseti, hvort t.d. þetta dæmi frá Noregi sýni okkur ekki raunverulega hættu á því að ef sjálfstæður réttur feðra til orlofstöku er ekki til staðar þá taki feður einfaldlega ekki orlof.