151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

Kosningar til Alþingis.

99. mál
[22:53]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Þetta er lítið og einfalt frumvarp, flutt af þingflokki Pírata um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis. Með frumvarpinu er lagt til að 2. mgr. 1. gr. laganna orðist svo:

„Íslenskur ríkisborgari, sem náð hefur 18 ára aldri og átt hefur lögheimili hér á landi, á og kosningarrétt hafi hann sótt um hann samkvæmt nánari reglum í 2. gr.“

Lagðar eru til eftirfarandi breytingar á 2. gr. laganna:

„a. Í stað 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Umsókn um kosningarrétt skv. 2. mgr. 1. gr. skal beint rafrænt til Þjóðskrár Íslands á því formi sem hún ákveður. Í umsókn skal koma fram nafn umsækjanda, kennitala hans, hvenær hann flutti af landi brott, síðasta lögheimili á landinu og heimilisfang erlendis.

b. 3. og 4. málsl. 1. mgr. falla brott.

c. Orðin „í fjögur ár“ í 6. málsl. 1. mgr. falla brott.

d. 2. mgr. fellur brott.“

Að lokum er lagt til að tilvísunin „b-lið“ í 3. mgr. 27. gr. laganna falli brott.

Þetta er dálítið tæknilegt en nú skal ég reyna að útskýra hvað þetta þýðir. Málið er nú lagt fram í fjórða sinn og var síðast lagt fram á síðasta löggjafarþingi. Með frumvarpinu er lagt til að íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru erlendis verði teknir á kjörskrá ef þeir leggja fram fullnægjandi umsókn um kosningarrétt. Með því fyrirkomulagi verður horfið frá þeirri framkvæmd sem nú gildir að íslenskur ríkisborgari sem hefur átt lögheimili hér á landi þurfi að sækja sérstaklega um að halda kosningarrétti sínum þegar liðin eru átta ár eða meira frá því að viðkomandi ríkisborgari flutti af landi brott, en ákvörðun um að einhver skuli þannig tekinn á kjörskrá gildir í fjögur ár.

Sá sem flytur frá landinu þarf áður en átta ár eru liðin að sækja um að halda kosningarrétti sínum og hann þarf að sækja um það á fjögurra ára fresti og getur þannig haldið kosningarrétti út ævi sína. Hér er lagt til að einungis þurfi að sækja um að halda kosningarrétti einu sinni, að ekki þurfi þetta stöðuga ferli á fjögurra ára fresti til að viðhalda honum.

Þá er lagt til að umsóknarferli vegna umsókna um töku á kjörskrá verði rafrænt en það einfaldar og styttir ferlið og gerir það öruggara. Flutningsmenn telja að verði frumvarpið samþykkt muni það spara kjósendum og Þjóðskrá Íslands þó nokkra pappírsvinnu og einfalda umstang í kringum kjörskrá.

Hér má nefna að í drögum að nýjum kosningalögum er hins vegar verið að leggja til að þessi kosningarréttur gildi í 16 ár, og ekki sé hægt að „kæra sig inn á kjörskrá“ á ný, þ.e. að ekki sé hægt að segja: Ég vil halda áfram kosningarrétti mínum þótt ég búi erlendis næstu fjögur árin og halda áfram þeim kærum. Við í Pírötum, sem erum með það grunngildi að efla og vernda borgararéttindi, sjáum alla vega þá breytingu sem skerðingu á borgararéttindum. Það er munurinn á því að geta kært sig inn á kjörskrá bara svo lengi sem viðkomandi lifir á móti því að kosningarréttur gildi bara í 16 ár frá því að viðkomandi flytur af landinu.

Þegar allt kemur til alls ræður fólk því sjálft hvort það nýtir kosningarrétt sinn og það er síður en svo auðvelt að nýta hann þegar maður býr erlendis þar að auki. Þá þarf oft hafa þó nokkuð fyrir því að nýta sér þann kosningarrétt og að sjálfsögðu að fylgjast með gangi mála á Íslandi. En þetta er tillaga til einföldunar á núverandi fyrirkomulagi og að mati flutningsmanna, eins og var sagt hérna, betrumbót á núverandi réttindakerfi í kringum kosningarrétt. Þegar hitt frumvarpið til kosninga til Alþingis verður flutt hér á þingi má endilega taka tillit til þessa á sama tíma. Ég held að það að breyta því á þann hátt að það gildi bara í 16 ár og svo búið sé ekki ásættanleg skerðing á þeim réttindum sem nú eru. Það er afturför hvað það varðar.

Það má geta þess að í stjórnarskránni þarf sá sem er með kosningarrétt að hafa íslenskan ríkisborgararétt og búa á Íslandi og í lögum er veitt rýmri heimild, víðtækari réttindi en það lágmark sem stjórnarskráin veitir í raun, það að ríkisborgari, þrátt fyrir að hann búi ekki á Íslandi, en hafi einhvern tímann haft lögheimili á Íslandi, geti viðhaldið kosningarrétti sínum. Ég hef heyrt spurningar um það hvort þetta brjóti gegn stjórnarskrárákvæðinu. Ég er ekki sammála því, því að miðað við núverandi fyrirkomulag þá getur ríkisborgari sem býr ekki á Íslandi haldið kosningarrétti. Stjórnarskráin setur ákveðin lágmörk sem við getum að sjálfsögðu gefið víðtækari réttindi út frá en við getum ekki skert þau niður fyrir það sem stjórnarskráin gefur okkur. Ég tel þetta mjög þægilega viðbót við núverandi fyrirkomulag, sérstaklega hvað það varðar þegar kosningar hafa verið óreglulegar, þegar þurft hefur að grípa til aukatíma og -heimilda til að fólk geti kært sig inn á kjörskrá tímanlega fyrir kosningar sem hafa verið haldnar á óvenjulegum tíma. Eins og núgildandi lög gera ráð fyrir þarf fólk að kæra sig inn á kjörskrá bara núna á næstu dögum ef það vill vera með kosningarrétt fyrir næstu kosningar í lok september, þannig að fólk þarf að huga að því einn, tveir og strax ef það er með þennan útrunna frest miðað við fjögur ár.

Við skulum láta staðar numið þar og ég vonast til að þetta frumvarp fari létta og góða leið því að þetta er nákvæmlega sama fyrirkomulag og núna nema einfaldara.