151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á fundi fjárlaganefndar í morgun var farið yfir rekstrarstöðu Landspítala – háskólasjúkrahúss og eins og alltaf voru svör Landspítalans mjög skýr og framsetning þeirra mjög gagnsæ. Landspítali – háskólasjúkrahús glímir við hallarekstur frá árunum 2018 og 2019, sem samkvæmt ársskýrslu ráðherra er óútskýrður en það er ekki ásættanlegt miðað við lög um opinber fjármál. Skýringar Landspítala – háskólasjúkrahúss eru hins vegar skýrar og greinilegar og ráðuneytin vita alveg hverjar þær eru. Hallinn útskýrist aðallega af mönnunarvanda og skorti á aðstöðu fyrir þau sem eru tilbúin til að útskrifast úr meðferð, svokölluðum fráflæðisvanda. Þetta er þekktur og viðurkenndur vandi eins og staða heilbrigðisstarfsfólks sem fær á sig gerðardóm aftur og aftur. Það er þekktur vandi. Annað sem útskýrir vandann og er dálítið áhugaverðara, ef hægt er að komast þannig í orði, er halli vegna vanreiknings í kjarasamningum. Eftir að kjarasamningar eru gerðir eru vísbendingar um að fjármálaráðuneytið vanreikni kostnaðinn sem fellur á stofnanir við að uppfylla þá. Það er falin aðhaldskrafa ef satt er. Það mun því verða verkefni fjárlaganefndar á næstunni að skoða það mál mjög vel því að ef satt reynist er mjög alvarlegt að verið sé að fela aðhaldskröfur á stofnanir í slíkum útreikningum.