151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[12:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Innflytjendur eru einmitt 15% íbúa á Íslandi og þess vegna velti ég fyrir mér hvers vegna stendur til að setja á fót tímabundið úrræði til að mæta þörfum þeirra, til að efla aðgengi þeirra að þeim réttindum sem við innfædd búum hér við. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það standi til að veita innflytjendum aðgang að háskólanámi, t.d. íslensku á háskólastigi. Og mig langar aðeins að tala við hæstv. ráðherra um ósýnilega fólkið, t.d. Pólverja sem tala hvorki ensku né íslensku og hafa engar leiðir til þess að kynna sér réttindi sín. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera til að koma til móts við þann hóp? Þurfa þau að bíða fram í janúar eða er mögulega hægt að opna símalínu Vinnumálastofnunar aftur þannig að þau geti a.m.k. talað við einhvern á pólsku um réttindi sín, lágmarksréttindi á vinnumarkaði? Mig langar líka að tala um skelfilegan húsakost þessa sama ósýnilega fólks. Hvað er hæstv. ráðherra að gera til að bæta skelfilegan húsakost innflytjenda í gistihúsum? Hvaða lærdóm hefur hæstv. ráðherra dregið af brunanum á Bræðraborgarstíg? Hvað hyggst hann gera til þess að slíkar hörmungar, slík þjóðarskömm, endurtaki sig aldrei?