151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

staða mála á vinnumarkaði nú á tímum Covid-19, munnleg skýrsla félags- og barnamálaráðherra. - Ein umræða.

[12:09]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alla vega skoðun þeirrar sem hér stendur að Byggðastofnun þurfi að horfa sérstaklega til svæðisins varðandi lánveitingar til uppbyggilegra verkefna. Eins og ég segi þá er það náttúrlega á ábyrgð okkar sem stjórnvalds að horfa til framtíðar. Það hefur lengi loðað við okkur Íslendinga að við séum skammsýn og eigum erfitt með að gera langtímaáætlanir. Það er okkar veikleiki og við verðum að bæta okkur á því sviði.

Í framsögu sinni kom hæstv. ráðherra víða við og talaði um margar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem lúta að því að fjölga störfum til að bregðast við því atvinnuleysi sem við erum að glíma við. Eitt af því var ný löggjöf um hlutdeildarlán til að örva húsnæðismarkaðinn. Svo eru náttúrlega, eins og ekki hefur farið fram hjá einum einasta Íslendingi, fjölmörg samgönguverkefni á dagskrá, og hafa komið til framkvæmda, sem skapa störf. Ráðherra nefndi einnig hér áðan í umræðunni íþróttafélögin og þar eru störf. Íþróttafélögin hafa mörg hver orðið illa úti í þessu ástandi og mig langaði til að heyra nánar frá ráðherranum hvernig hann sæi frekari viðbrögð gagnvart þeim fyrir sér.

Nú er ríkisstjórnin að koma með fjölmargar aðgerðir og sveitarfélögin og það eru einhvern veginn allir um borð að reyna að róa og létta á. En þá spyr ég ráðherrann: Hvað finnst honum um viðbrögð og aðgerðir bankastofnana? Maður heyrir það alla vega víða og sér það líka í (Forseti hringir.) Peningamálum, riti Seðlabankans, að lánveitingar hafa dregist verulega saman síðustu mánuði. Mig langar aðeins til að heyra skoðanir ráðherrans á þessu.