151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[23:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Frumvarp þetta er til komið í kjölfar skýrslu þess starfshóps sem hér hefur verið rætt um, sem fjármálaráðherra setti á fót 1. apríl 2019 og var ætlað að fara yfir skattalegt umhverfi þeirrar starfsemi sem féll undir þriðja geirann með það að markmiði að styrkja það. Ég vil taka undir það hér sem kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra, að það er að sjálfsögðu brýnt að þetta mál verði afgreitt vegna þess að það er gott, en þó hefði ég kosið að efnahags- og fjármálaráðherra hefði lagt þetta mál fram fyrr. Hann hefði nú alveg haft tækifæri til þess. En þriðji geirinn, eins og hann er kallaður hér, er afar mikilvægur í samfélagi okkar og sjálfboðaliðar skila inn verðmætu vinnuframlagi til samfélagsins. Ég held að við getum öll verið sammála um það. Í raun og veru hefur ríkisvaldið stólað á sjálfboðaliða í hinum margvíslegu störfum, eins og t.d. hvað björgunarsveitirnar varðar.

Hér er sem sagt um tímabærar breytingar á rekstrarumhverfi almannaheillasamtaka að ræða sem lagðar eru til í þessu frumvarpi. Breytingarnar munu án efa hafa jákvæð áhrif og efla þennan þriðja geira í sínum mikilvægu störfum til heilla almenningi í landinu. Málið er því þjóðhagslega mikilvægt, ef svo má að orði komast. Ég er sannfærður um að breytingin verði jákvæð og öllu samfélaginu til heilla. Að nýta skattkerfi til góðra verka með þessum hætti, með því að auka efnahagslega hvata fyrir gefendur vegna gjafa og framlaga til starfsemi í þágu almannaheilla, er til þess fallið að stuðla að aukinni, samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja og einstaklinga hvað þetta varðar. Það finnst mér vera ánægjulegt því að vissulega mættu mörg fyrirtæki horfa meira til samfélagslegrar ábyrgðar í starfsemi sinni. Segja má að með núverandi fyrirkomulagi hafi ríkissjóður í raun staðið fyrir því að íþyngja krefjandi góðgerðarstarfsemi til almannaheilla — svo einkennilegt sem það er þá er það nú bara þannig — sem alla jafnan hvílir á herðum sjálfboðaliða.

Í frumvarpinu felst einnig viðurkenning löggjafans á því mikilvæga hlutverki sem félög til almannaheilla sinna í íslensku samfélagi og því óeigingjarna starfi sem oftar en ekki er sinnt af sjálfboðaliðum við erfiðar aðstæður oft og tíðum. Viðurkenning á þeim samfélagslegu verðmætum — þetta eru náttúrlega samfélagsleg verðmæti, herra forseti, það er í raun og veru einstakt að eiga svona öfluga sjálfboðaliða eins og t.d. björgunarsveitirnar, sem við stólum algerlega á ef hér eru veður válynd, og í náttúruhamförum og slíku. Þetta er sem sagt mikilvæg viðurkenning og það er að sjálfsögðu afar jákvætt. Þetta er viðurkenning á þessum samfélagslegu verðmætum sem leiða af þessu óeigingjarna starfi hinna fjölmörgu sjálfboðaliða sem starfa fyrir almenning í landinu.

Auk þess er ekki síður um að ræða viðurkenningu á því góða starfi sem þarf til að halda úti samfélagslega mikilvægum þáttum sem byggjast einnig á sjálfboðavinnu. Auknir skattalegir hvatar til að styrkja almannaheillafélög fjárhagslega koma ekki síst vel smærri félögum og samtökum sem byggja stærstan hluta sinna tekna á fjárframlögum einstaklinga og fyrirtækja. Það sama má segja um undanþágur frá því að greiða erfðafjárskatt af gjöfum til aðila sem starfa til almannaheilla. Mjög mikilvægt ákvæði. Fyrir þau samtök sem eiga og reka fasteignir í tengslum við starfsemi sína eru ákvæðin sem snúa að tekjuskatti og virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingarstað afar mikilvæg, enda endurnýjun og viðhald húsnæðis fjárfrekur liður í rekstri þeirra, eins og við þekkjum, og mikilvægt að það íþyngi ekki starfseminni frekar en nauðsynlegt er.

Sá liður sem ég vil aðeins staldra við snýr að endurgreiðslu virðisaukaskatts af byggingu eða endurbótum húsnæðis. Vissulega munar um að lögaðilum sem starfa til almannaheilla verði gert kleift að óska eftir 60% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnuliðnum. Ég held að það sé bæði sanngjarnt og mikilvægt að ganga lengra hvað það varðar. Aukin vitund er í samfélaginu hvað varðar vanrækslu á viðhaldi húsnæðis og alvarleg vandamál sem því eru samfara, og við þekkjum það varðandi myglu og annað slíkt, getur valdið gríðarlegu tjóni. Þess vegna er viðhald afar mikilvægt. Ef því er ábótavant getur það hreinlega ógnað öryggi og heilsu þeirra sem þar dvelja. Það þekkjum við, það hefur verið rætt hér og er mikið rætt í samfélaginu í dag.

Auknar kröfur eru t.d. gerðar til gæða-, öryggis- og aðgengismála húsnæðis til almannaheilla. Það er mikilvægt að styðja við félög sem byggja á þeim grunni og eru mest byggð á sjálfboðaliðum, eins og ég nefndi, að þau standi vel að viðhaldi húseigna sinna sem nýttar eru undir þá starfsemi. Það er sem sagt mikilvægt að það sé gluggi, ef svo má orða það, í lögunum um virðisaukaskatt, svo félagasamtök til almannaheilla, sem eiga og reka húsnæði sem eingöngu er nýtt undir þá starfsemi, geti sótt um fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna nýbygginga og viðhalds húsnæðis, bæði af vinnuliðum og efniskaupum. Ég kem aðeins nánar að því á eftir.

Í 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um að hægt verði að sækja um endurgreiðslu á 60% af greiddum virðisaukaskatti af vinnu manna á byggingarstað, við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu lögaðila sem starfa til almannaheilla, að uppfylltum nánari skilyrðum. Í bráðabirgðaákvæði í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sem fjallar um tímabundnar heimildir til endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu á byggingu er einnig heimilt að óska eftir endurgreiðslu á virðisaukaskatti af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíku mannvirki.

Í greinargerð með frumvarpinu, í drögunum, er vísað til b-liðar 7. gr. laga nr. 25/2020, í skýringu á 8. gr. frumvarpsins. Í því ákvæði er bæði fjallað um vinnu á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum, auk vinnu við hönnun og eftirlit með byggingu á þeim. Í ljósi þess að slíkur kostnaður er órjúfanlegur þáttur í byggingarkostnaði mannvirkja er bæði einfaldara og eðlilegra að virðisaukaskattur af vinnu við hönnun og eftirlit með byggingu falli undir sömu reglu og önnur vinna við byggingu mannvirkja sem byggð er undir starfsemi til almannaheilla.

Til viðbótar þessu má benda á að til þess að styðja við starfsemi til almannaheilla væri bæði sanngjarnt og eðlilegt að umrædd endurgreiðsla væri einnig vegna kaupa á vöru, þ.e. efniskaupa, ekki síður en keyptri þjónustu. Slíkt væri í fullu samræmi við tilgang lagafrumvarpsins og þess að þeir aðilar sem falla undir lögin geti hvorki nýtt sér innskatt af keyptri vöru né keyptri þjónustu. Með vísan til sömu sjónarmiða má einnig benda á að æskilegast væri að endurgreiðsla á virðisaukaskatti tæki þannig til hans í heild í stað þess að ná aðeins til 60% af honum, eins og gert er ráð fyrir

Í umsögnum um málið í samráðsgáttinni kemur fram hjá fleiri en einum aðila að taka þurfi tillit til þess að styrkir til félagasamtaka eru oft ekki greiddir í einni greiðslu heldur skipt upp í greiðslur í hverjum mánuði. Ég held að margir þekki þetta, þeir styðja við samtök; félagasamtök, björgunarsveitir o.s.frv. með mánaðarlegum framlögum og oft og tíðum er tekið af kreditkorti og er það tiltölulega þægileg leið til að styrkja gott málefni. Þess vegna er óheppilegt að þeim einstaklingum sem vilja láta gott af sér leiða með þessu og styðja við starfsemi almannaheillafélaga með reglubundnum hætti, eins og ég nefndi, sé í raun og veru mismunað samanborið við þá sem vilja gefa slík framlög eða gjafir einstaka sinnum. Þetta er nokkuð sem nefndin verður að fara vandlega yfir. Gera þarf ráð fyrir því að þegar styrkir hvers og eins nema á bilinu 10.000–350.000 kr. samtals á almanaksári sé viðkomandi veittur frádráttur frá skatti að uppfylltum öðrum skilyrðum.

Að mínum dómi þarf að þar að skýra þetta frekar við vinnu frumvarpsins. Slíkt gæti t.d. verið með þeim hætti að texta ákvæðisins væri breytt þannig að orðið „einstaka“ í upphafi ákvæðisins yrði tekið út eða stuðst við orðalagið „að lágmarki 10.000 kr. og allt að hámarki 350.000 kr. á almanaksári“. Ég held að það sé mjög mikilvægt að nefndin fari vandlega yfir þetta vegna þess að það eru svo margir sem kjósa þetta fyrirkomulag. Það er fólki auðveldara að styðja við mikilvæga starfsemi með þessum hætti, þessum mánaðarlegu framlögum, og að sjálfsögðu eiga sömu reglur að gilda um það vegna þess að það munar um hvert framlag. Hér er verið að leggja til lagaframkvæmd sem á náttúrlega að stuðla að því að sem flestir vilji styðja við bakið á þessari mikilvægu starfsemi sem fylgir mörgum hverjum almannaheillafélögum, og í raun og veru öllum. Þá mega ekki tæknilegir þættir koma í veg fyrir að fólk sjái sér fært að styðja við þessa starfsemi. En það sjónarmið hefur komið fram í tengslum við þetta mál að frjáls félagasamtök sem vinna að forvarnastarfi séu einnig skilgreind með starfsemi til almannaheilla. Þetta hefur komið fram í umræðunni og ég hjó eftir því að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór vel yfir það hér í andsvari, enda er það mjög mikilvægt mál. Má þar nefna félagasamtök sem vinna að umferðaröryggismálum, forvörnum gegn fíkniefnanotkun, forvörnum gegn sjálfsvígum o.s.frv. Slík félagasamtök sinna mjög mikilvægum málefnum í samfélagi okkar og treysta á velvilja almennings, fyrirtæki og ýmsa sjóði og hið opinbera.

Færa má rök fyrir því að slík félagasamtök falli vel að tilefni laganna. Þetta er eitt af því sem nefndin ætti einnig að skoða og er mjög mikilvægt að hún geri það þar sem þessi félagasamtök starfa með samfélagsleg markmið að leiðarljósi og hafa það að meginmarkmiði að vinna að umbótum í þágu almennings og samfélagsins.

Ég vil svo að lokum segja það hér, herra forseti, að það er eðlilegt og mikilvægt að þeir hlutir sem ég hef nefnt hér verði sérstaklega ræddir í nefndinni.