151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

uppgreiðslugjald Íbúðalánasjóðs.

[10:52]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Dómur héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember síðastliðinn um ólögmæti uppgreiðslugjalds Íbúðalánasjóðs hefur vakið mikla athygli. Þúsundir einstaklinga búa nú við mikla réttaróvissu eftir áfrýjun dómsins til Landsréttar. Getur hæstv. ráðherra staðfest að áfrýjandi muni leita eftir flýtimeðferð málsins til að stytta tímann sem þessarar réttaróvissu gætir? Þeir sem hafa verið læstir í heljargreipum í láni Íbúðalánasjóðs fyrir tilstilli hins ofurháa uppgreiðslugjalds, sem nemur t.d. 16% af uppgreiðsluvirði lánsins sem dómsmálið snerist um, verða það áfram þangað til fullnaðarniðurstaða fæst fyrir dómstólum nema stjórnvöld ákveði að grípa til annarra aðgerða. Dómurinn sýnist vel ígrundaður og rökstuddur, dómurinn er fjölskipaður með tveimur sérfróðum meðdómurum og hefur að því leyti annað vægi en dómur eins héraðsdómara í máli frá 2014. Getur ráðherra tekið undir að yfirvofandi skaðabótamál vegna tjóns sökum innilokunar í lánum Íbúðalánasjóðs ef betri kjör buðust á markaði gefi tilefni til að íhuga sáttaleið í málinu, þó þannig að öll ólögmæt uppgreiðslugjöld yrðu endurgreidd undantekningarlaust?

Herra forseti. Staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms, áformar ráðherra þá að komið verði til móts við þá sem völdu að greiða hærri vexti til að sleppa við uppgreiðsluþóknanir með hliðsjón af því að það val tók mið af þeirri fölsku forsendu að uppgreiðsluþóknun væri lögmæt? Til dæmis, hæstv. ráðherra, með því að endurgreiða þeim vaxtamismuninn svo að þeir verði jafnsettir öðrum með tilliti til jafnræðisreglu?