151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir tækifærið til að fá að ræða þessi mál hér á Alþingi í aðdraganda jóla. Tíðindi af bóluefni gegn Covid-19 veirunni berast ört og er ekki ofsagt að fréttirnar berist á hverri klukkustund. Hér er um að ræða vöru sem er meiri eftirspurn eftir en nokkurri vöru á nokkrum tíma í sögunni, þ.e. bóluefni gegn Covid-19 sem hvert einasta mannsbarn horfir til og bíður eftir með eftirvæntingu.

Það er mikil óþreyja sem ríkir um það hvenær bólusetningar geti hafist, sem er eðlilegt. Það er í raun magnað hversu hratt þróun bóluefnis gegn Covid-19 hefur gengið og nú er það staðreynd að á Íslandi munum við geta hafið bólusetningu hér á landi um áramót. Við þurfum þó að vera viðbúin því að bóluefni berist til landsins í einhverjum skömmtum og að bólusetning eigi sér stað í skrefum á næsta ári.

Eftirfarandi eru staðreyndir um stöðu samninga við bóluefnaframleiðendur og framkvæmd bólusetningar. Evrópusambandið hefur gert samning við sex lyfjafyrirtæki sem hafa unnið að þróun bóluefnis. Af þessum sex eru tvö fyrirtæki komin lengst sem eru þau AstraZeneca og Pfizer. Það þýðir að þau hafa lokið þriðja fasa rannsókna og samningur er undirritaður við Ísland um afhendingu bóluefnis og umfang samningsins. Þriðja fyrirtækið, Moderna, hefur lokið þessum þriðja fasa rannsókna og er búist við að samningur við það fyrirtæki verði undirritaður fyrir áramót.

Ekkert bóluefni hefur enn fengið markaðsleyfi í Evrópu en það er búist við að markaðsleyfi fyrir Pfizer verði gefið út fyrir jól. Gera má ráð fyrir að markaðsleyfi verði gefið út fyrir Moderna fljótlega eftir áramót og fyrir AstraZeneca í síðasta lagi í febrúar.

Íslendingar, líkt og Norðmenn, hafa samið við Svía sem annast milligöngu um afhendingu bóluefna hingað til landsins. Það er því tryggt að við fáum bóluefni í sama hlutfalli og önnur lönd í Evrópu. Það liggur fyrir. Strax eftir jól er fyrirhugað að hefja bólusetningar hjá framlínustarfsmönnum í heilbrigðisþjónustunni, sem eru rúmlega 1.000 manns. Jafnframt verður þá hafin bólusetning hjá íbúum á hjúkrunarheimilum og öldrunarstofnunum, sem eru 3.000–4.000 manns. Þegar næsta sending kemur í byrjun næsta árs verður haldið áfram með bólusetningu hjá elstu aldurshópunum.

Afhendingaráætlun að því er varðar efni Pfizer liggur nú fyrir fyrsta ársfjórðung þar sem að meðaltali um 3.000 skammtar koma á viku frá 27. desember og út mars. Þetta eru aðeins breytilegar tölur; frá 2.800 og upp í ríflega 4.000 skammta á viku á fyrsta ársfjórðungi. Þetta liggur fyrir og skiptir máli varðandi skipulagninguna. Bóluefni frá AstraZeneca og Moderna mun að öllum líkindum verða tilbúið líka til afhendingar á fyrsta ársfjórðungi en samningar okkar við þessi fyrirtæki tryggja okkur bóluefni sem ætti að nægja til að bólusetja þann hluta þjóðarinnar sem er markhópur fyrir bólusetningar, þ.e. fólk fætt fyrir 2005.

Miðað er við að minnst 70% af markhópnum þurfi að fá bólusetningu til að hjarðónæmi náist, sem er nauðsynlegt til að faraldurinn sé undir fullri stjórn. Skipulag bólusetningar hér á landi er í höndum sóttvarnalæknis en framkvæmdin er í höndum heilsugæslunnar um allt land og sjálf bólusetningin hér á landi mun ekki verða flöskuháls og heldur ekki dreifingin hér innan lands heldur verður hún framkvæmd jafn skjótt og bóluefnin berast.

Á vegum sóttvarnalæknis er unnið að skipulagningu og samræmingu bólusetningar á landsvísu og það hefur verið gefin út áætlun um bólusetninguna. Þar koma fram upplýsingar um forgangsröðun við bólusetningu, um skipulag innköllunar einstaklinga í bólusetningu, um skráningu o.fl. Þá er nú þegar farið að setja inn upplýsingar um bólusetningu á vefsíðunni bólusetning.is, en gerð fræðsluefnis fyrir heilbrigðisstarfsfólk um bólusetningu er langt komin og nú þegar er fundað reglulega með umdæmis- og svæðislæknum allra heilbrigðisumdæmanna um skipulag bólusetningar.

Engar alvarlegar aukaverkanir hafa komið fram við notkun bóluefnisins hingað til. Væg inflúensueinkenni og eymsli á stungustað eru algengustu einkennin en það er ástæða til að gæta varúðar hjá þeim sem hafa alvarlegt ofnæmi og þá hefur bóluefnið heldur ekki verið prófað á ófrískum konum, sem er rétt að halda til haga.

Það er mikilvægt, virðulegi forseti, að Íslendingar hiki ekki við að láta bólusetja sig. Þótt þróun bóluefnis hafi gengið með methraða á heimsvísu og sögulega, þá verður ekki farið yfir nein öryggisstig í þróun þess. Ástæða þess að ferlið hefur gengið svo hratt sem raun ber vitni er að öll sú reynsla sem liggur fyrir við fyrri þróun bóluefna auk ríflegs fjármagns og samstöðu þjóða hefur verið lagt í framleiðsluna og áhersluna á að ná þessum árangri.

Ef allt fer á besta veg má búast við því að við höfum bólusett þorra þjóðarinnar á fyrstu tveimur ársfjórðungum næsta árs og að við getum jafnframt þá jafnharðan farið að huga að afléttingum sem koma lífi landsmanna í eðlilegt horf og eðlilegra horf en nú er.

Við erum, virðulegi forseti, að stíga inn í nýjan kafla í baráttunni við Covid-19. Það er full ástæða til að gleðjast yfir því og láta ekki slá okkur út af laginu þó að dagarnir séu misgóðir í fréttum vegna þess að fyrst og fremst er staðan sú að við erum komin inn í þennan nýja kafla bóluefnis og við höfum með samningum okkar tryggt okkur nægilegt magn bóluefna fyrir Ísland. Það er lykilatriði og bólusetningar munu hefjast fljótlega.