151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[13:32]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. og framsögumanni, Ásmundi Friðrikssyni, fyrir kynninguna á þessum breytingum. Ég fagna því að stjórnarliðar í hv. velferðarnefnd hafi séð til sólar í þessu máli af því að þetta var auðvitað mjög brýnt. Þess vegna flutti ég um það breytingartillögu í þinginu að launatengdu gjöldin færu undir stuðninginn. Það er ekkert annað sem kemur til greina. Það er þannig í öðrum málum. Ég verð bara að fagna því að meiri hluti nefndarinnar hafi loksins séð ljósið og komið hingað með þessa breytingartillögu í stað þess að samþykkja þá sem borin var upp af þeirri sem hér stendur. En batnandi fólki er best að lifa og ég fagna því. Þetta er mjög mikilvægt mál, stuðningur við íþróttafélögin á þessum Covid-tímum þegar tekjufallið er algjört. En vegna eðlis starfsins sem þarna fer fram og eðlis þeirra samninga sem gerðir eru við þá sem iðka íþróttir annars vegar og þjálfa og aðstoða hins vegar er ekki um að ræða venjulegt launasamband eða venjulega verktakasamninga sem snúast um fullt starf og þess háttar heldur eru þetta iðulega hlutastörf. Þess vegna lúta þau aðeins öðrum lögmálum en önnur störf og komast ekki inn í önnur úrræði stjórnvalda. Þetta er því mjög jákvætt.