151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:25]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég gera þá athugasemd að sá sem hér stendur er utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

(Forseti (ÞorS): Forseti biðst velvirðingar.)

Það er algjörlega tekið til greina.

Nú erum við auðvitað að tala um önnur mál en tengjast því sem hér er rætt almennt varðandi EES-samninginn. Það er enginn vafi í mínum huga að ef við teljum rétt að beita þeim greinum sem eru í samningnum út af einhverjum þeim aðstæðum sem upp koma á Íslandi þá gerum við það auðvitað. Það liggur alveg fyrir í mínum huga. Ég ætla ekki að fara í umræðu um þriðja orkupakkann. Með þennan ágæta mannskap í sal held ég að við skyldum hugsa til þess að við viljum halda jólin og því kannski ekki skynsamlegt að feta þá braut. Við höfum vonandi tækifæri til að ræða hann við annað og betra tilefni. En það liggur alveg fyrir að við höfum náttúrlega mikil réttindi í EES-samningnum og við eigum ekkert að hika við að beita þeim þegar svo ber undir og ef slíkar aðstæður koma upp. Það er enginn vafi í mínum huga.