151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég taldi mig nú hafa farið tiltölulega ítarlega yfir það við 2. umr. málsins sem ég taldi mikilvægt að benda á í þessari umræðu. Svo kemur hæstv. utanríkisráðherra og þar áður hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson með einhverja talpunkta sem virðast, án þess að ég ætli að fullyrða um það, ættaðir frá lærimeistara hæstv. utanríkisráðherra, Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra og núverandi nettrölli. Ég heyri að hæstv. ráðherra leggur sig fram við að hlæja og ætlar þá væntanlega að segja okkur að þetta sem hann er búinn að útskýra hér sé allt saman pólitísk afstaða ráðuneytisins.

En það sem við horfum auðvitað upp á og heyrum núna er staðfesting kenningar sem ég viðraði fyrir alllöngu og fæ sífellt frekari staðfestingu á, að Sjálfstæðisflokkurinn er í rauninni orðinn eins og Samfylkingin var fyrir rúmum áratug. Það er erfitt að finna mikinn mun á áherslumálum, stefnu og jafnvel tungutaki Sjálfstæðisflokksins nú og Samfylkingarinnar áður. Ekki nóg með það heldur virðist flokkur hæstv. utanríkisráðherra vera að temja sér vinnubrögð gömlu Samfylkingarinnar. Samfylkingin var t.d. þekkt fyrir að vera einstaklega minnislaus. Hún gleymdi jafnharðan hverju hún hefði tekið þátt í, að hún hefði verið í ríkisstjórn, að hún hefði tekið þátt í ákveðnum ákvörðunum. Hún kom algjörlega af fjöllum, fæddist ný á hverjum degi. Nú virðist þetta vera viðtekinn háttur hjá Sjálfstæðisflokknum líka. Við höfum séð þetta í fleiri málum. Sjálfstæðisflokkurinn kannast ekkert við að hafa verið í ríkisstjórn áranna 2016–2017 og jafnvel ekki áranna 2013–2016. Allt sem gerðist í þeim ríkisstjórnum var ákveðið af einhverjum öðrum en þeim. Samfylkingartrikkið: Að gleyma og fæðast nýir á hverjum degi.

En það sem er kannski verra er að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa tileinkað sér þá háttsemi Samfylkingarinnar að reyna að endurskilgreina sannleikann og aðhyllast — og nú bið ég hæstv. forseta afsökunar fyrir fram en mig skortir íslenskt mál yfir þetta þekkta fyrirbæri — „post truth“, þ.e. það sem einkennir kannski tímabil okkar í stjórnmálum, tímann eftir sannleikann þegar menn búa hann til jafnóðum. Við höfum séð dæmi um það í umræðunni hér í dag þar sem menn kannast ekki við nokkurn skapaðan hlut sem er í frumvörpum sem þeir hafa lagt fram og eru að samþykkja.

Við sjáum þetta enn. Ekki mátti heyra betur á máli hæstv. utanríkisráðherra þegar hann kom hingað upp og hélt nokkuð merkilega ræðu um tollasamning við Evrópusambandið. Þetta kemur í framhaldi af því að Alþingi samþykkti, m.a. með öllum atkvæðum okkar Miðflokksmanna, að ráðast í athugun á tilurð þessa samnings. Þá gat hæstv. ráðherra ekki á sér setið að koma upp í ræðustól og nánast segja okkur hv. þingmönnum: Vitið þið til hvað kemur út úr þessu. Hæstv. ráðherra tilkynnti þinginu nánast að hann ætlaði að ritstýra niðurstöðunni. Hvernig hann ætlar að fara að því að ná þeirri niðurstöðu sem hann langar að sýna er svo annað mál. Það verður snúið, það verður mjög snúið því að staðreyndir málsins liggja fyrir. Hins vegar höfum við í þingflokki Miðflokksins undanfarin ár ítrekað beitt okkur fyrir annaðhvort uppsögn eða endurskoðun samningsins. Þegar Bretar gengu úr Evrópusambandinu bentum við á að þar með væri kominn ákveðinn forsendubrestur og tilefni til að nýta hann til að endurskoða samninginn. Þessu var ekki vel tekið af hálfu hæstv. utanríkisráðherra, gott ef hann kallaði þetta ekki popúlisma. Aðrir sem áttu sinn þátt í því að gera þennan samning, sem síðan reyndist allt annars eðlis en kynnt var, sögðu þetta fráleitt markmið, fráleitan málflutning.

Nú fögnum við því, hæstv. forseti, að menn hafa séð að sér og séu reiðubúnir til að endurskoða samninginn. En þá vilja þeir fyrir alla muni reyna á einhvern hátt að varpa ábyrgð af honum annað, til þeirra sem hafa mánuðum og árum saman verið að berjast fyrir endurskoðun samningsins eða uppsögn hans og fengið ekkert nema skammir fyrir þangað til nú. En auðvitað gleðjumst við yfir því að hæstv. ráðherra sé reiðubúinn að sjá að sér hvað þessa endurskoðun varðar þótt hann hafi greinilega áhuga á að ritstýra umfjöllun um tilurð samningsins. Hæstv. ráðherra tók það upp eftir lærimeistara sínum Birni Bjarnasyni að á þeim tíma hefðu það helst verið Framsóknarmenn í ríkisstjórn sem gerðu þennan samning og þá einkum og sér í lagi forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann.

Ég gerði ekki þennan samning, hæstv. forseti. Ég heyrði fyrst af honum í því formi sem hann var þegar sá sem hér stendur var á akstri norður í landi og þáverandi landbúnaðarráðherra mætti óvænt í beina útsendingu í sjónvarpsfréttum til að tilkynna að samningar hefðu farið af stað fyrir alvöru fyrr þann dag, hefðu klárast rétt fyrir fréttir undir handleiðslu ráðherrans og verið undirritaðir í framhaldi af því, rétt fyrir fréttir. Þeir hefðu farið af stað þann sama dag. Þeir hefðu klárast rétt fyrir fréttir og verið undirritaðir. En hæstv. ráðherra, sem aðhyllist nú eftirsannleikann eða „post truth“, afsakið, herra forseti, telur greinilega gagnlegra að skýla lítilmagnanum í ríkisstjórn hans og reyna á einhvern hátt — við eigum eftir að sjá hvaða aðferð hæstv. ráðherra finnur til þess í þessari skýrslu sinni — að varpa yfir á aðra ábyrgðinni af samningi sem var tilkynnt í fréttum að hefði verið kláraður af þáverandi landbúnaðarráðherra.

Þó má ekki gleyma því að ákveðin vonarglæta er í þessum sinnaskiptum hæstv. ráðherra því að ef eitthvað verður af þessari endurskoðun skiptir það gríðarlega miklu máli. Og þá munum við Miðflokksmenn ekki elta ólar við það hver stofnaði til samningsins eða hver var fyrstur til að benda á mikilvægi þess að endurskoða hann. Við munum þakka þeim sem náðu fram endurskoðun. En því miður óttast ég að endurskoðun muni engu skila fyrir kosningar því að Evrópusambandið verður fast fyrir. Við höfum séð hvernig gengur með Brexit-viðræðurnar. Mun þessi ríkisstjórn eða þessi hæstv. utanríkisráðherra þá standa uppi í hárinu á Evrópusambandinu? Mun hæstv. ráðherra sem kom hingað upp og fann alla vankanta á þeim leiðum sem væru til að endurskoða samninginn, hæstv. ráðherra sem tók reyndar líka línuna frá lærimeistara sínum Birni Bjarnasyni í umræðu um þriðja orkupakkann og flutti hana umbúðalaust, mun hann standa uppi í hárinu á Evrópusambandinu og krefjast endurskoðunar á samningnum eða vera reiðubúinn til að segja honum upp ella? Getur hæstv. ráðherra sagt okkur að hann sé tilbúinn til að segja upp samningnum? Ég er ekki svo viss um það. Boris vinur okkar Johnson á nógu erfitt með að fást við Evrópusambandið.

Mun hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson sýna meiri festu gagnvart Evrópusambandinu og klára fyrir næstu kosningar endurskoðun tollasamningsins ellegar uppsögn hans eða er þetta bara kosningaútspil? Er hæstv. ráðherra, sem er nú þekktur fyrir kosningaundirbúning, búinn að líta á dagatalið og átta sig á því að rétt sé að kasta út fullyrðingum um að hann ætli að verja rétt Íslands og ráðast í endurskoðun á samningi án þess endilega að treysta sér til að fylgja því máli til enda? Ekki verður hægt að ná fram endurskoðun samningsins öðruvísi en að vera reiðubúin til að segja honum upp og nýta þau ákvæði sem, eins og bent hefur verið á, eru til staðar til að ná fram þeirri endurskoðun.

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að halda í örlitla von um að þetta sé ekki bara kosningaútspil hjá hæstv. ráðherra þó að vísbendingarnar séu kannski á annan veg; yfirlýsingar hans hér um ritstjórn skýrslu um tilurð samningsins, sífelldar endurtekningar á bloggfærslum lærimeistara hans Björns Bjarnasonar og öll nálgun hans við þetta mál. Ef hæstv. ráðherranum er alvara og er reiðubúinn til að fara í alvöruviðræður um endurskoðun samningsins gegn því að honum verði ella sagt upp þá mun hann eiga stuðning okkar vísan. Ég get lofað hæstv. ráðherra því. Við munum fagna með hæstv. ráðherra ef það skilar ásættanlegri niðurstöðu. Þetta er það mikið hagsmunamál fyrir íslenskan landbúnað að það á ekki að falla í gryfju átaka hér. Ef mönnum er alvara með að beita sér þá beitum við okkur saman. Þá beitum við okkur saman og hæstv. ráðherra má vita það að hann mun ekki finna öflugri stuðningsmenn í því en þingmenn Miðflokksins. Því hvet ég hæstv. ráðherra til að fara af stað með þetta verkefni, framkvæma það hratt og vel og auðvitað fyrir kosningar því að það þarf að gerast hratt. Það er neyðarástand ríkjandi í íslenskum landbúnaði og afleiðingar þessa samnings, sem hefur reynst svo allt öðruvísi en hann var kynntur í sjónvarpsfréttum kvöld eitt 2015, hafa verið afskaplega þungbærar íslenskum landbúnaði.

Að þessu sögðu, herra forseti, má hæstv. ráðherra líta á þetta sem hvatningarræðu til sín um að fara nú í alvöruviðræður við Evrópusambandið, ná þar árangri og vita að í alvöruátökum um framtíð íslensks landbúnaðar geti hann treyst á þingmenn Miðflokksins.