151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[20:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú er ég undrandi að hæstv. ráðherra sé undrandi. Hann virðist ekki hafa mikil tækifæri til að fylgjast með stjórnmálaumræðu á Íslandi því að ég hef fjallað um þetta mál alloft, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, í íslenskum fjölmiðlum, í greinaskrifum og hér á Alþingi. Ég vona að hæstv. ráðherra fylgist betur með gangi mála í útlöndum. En eins og ég nefndi áðan í ræðu minni kemur þetta allt fram í fréttinni þar sem tilkynnt var um samninginn. Viðræður komust á skrið fyrr þann dag, svo kláruðust þær rétt fyrir fréttir og voru undirritaðar nánast í fréttatímanum. Svoleiðis að já, á endanum var þetta á forræði þáverandi landbúnaðarráðherra. Það breytir ekki því að auðvitað bera ráðherrar, og forsætisráðherra, á margan hátt sameiginlega ábyrgð á því sem gerist. Ég hef þegar sagt það margoft, hæstv. forseti, eins og hæstv. utanríkisráðherra myndi vita ef hann fylgdist með innlendum fréttum, að ég biðjist afsökunar á því að hafa ekki haft meiri fyrirvara á gagnvart þessum landbúnaðarráðherra á sínum tíma sem kynnti fyrir mér og ríkisstjórninni samning sem var allt annars eðlis en svo kom á daginn. Nú minni ég hæstv. ráðherra aftur á að í þessari ríkisstjórn voru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Nú kannast hann ekki við að hafa verið í ríkisstjórn 2013–2016, er búinn að steingleyma ríkisstjórn — gaman að sjá að hæstv. ráðherra fái stuðning úr óvæntri átt — áranna 2016–2017, kannast ekkert við það, (Forseti hringir.) fæddist nýr í gær og mun eftir samþykkt mála, t.d. mála sem við ræddum hér og þingið samþykkti í dag, (Forseti hringir.) ekkert kannast við þau þegar fram líða stundir.