151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

stjórnarsamstarfið.

[15:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er nú þannig að alltaf þegar kosningar nálgast kemur ákveðin spenna í þennan sal, ég hef lært það á þeim árum sem ég hef verið hér. Ég veit að það verður ekkert öðruvísi að þessu sinni heldur en í öll hin skiptin og hef ekki miklar áhyggjur af því, ég hef bara gaman af smá spennu í þingsal. En það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það eru stór verkefni fram undan, mörg hver sem er búið að undirbúa mjög vel. Hv. þingmaður vitnaði hér til frumvarps um hálendisþjóðgarð sem er búinn að vera í mikilli umræðu allt kjörtímabilið, m.a. í þverpólitískri nefnd sem fór vel yfir það svið. Það skiptir máli að sú vinna haldi áfram á vettvangi þingsins og það á við um öll þau mál sem hv. þingmaður nefndi. Þau koma hér inn á þennan vettvang til að vera rædd áfram. Það kunna að vera gerðar breytingar á þeim, eins og verður vafalaust gert með það frumvarp, sóttvarnalög, stjórnarskrá og hvaðeina. En það er mikil vinna á bak við þessi frumvörp. Ég vonast til þess, þó að það sé aðeins spenna í þingsalnum, að þingið haldi áfram að nálgast málin með þeim hætti að vinna þau vel og gera þau betri í meðförum sínum.