151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

jarðalög.

375. mál
[16:42]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingar á jarðalögum, frumvarp sem ég tel að mörgu leyti gott, ekki síst eftir þær breytingar sem orðið hafa eftir athugasemdir sem fram komu við kynningu í samráðsgátt. Frumvarpið virðist færa sveitarfélögunum tæki til að stýra landnotkun í samræmi við skipulag. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í framsögu sinni mælir 2. gr. fyrir um að við gerð aðalskipulags í dreifbýli skuli flokka land með tilliti til ræktunarmöguleika. Ráðherra gefur út leiðbeiningar um flokkun ræktarlands í samráði við yfirvöld skipulagsmála.

Í máli hæstv. ráðherra kom síðan fram að þessar leiðbeiningar ættu að liggja fyrir fyrir árslok. Þá er spurningin: Hvaða árslok? Ég álít raunar að það séu árslok 2020. Getur ráðherra eitthvað upplýst mig um stöðuna?

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í annað atriði. Lagt er til að hugtakið ræktarland taki lítils háttar breytingum þannig að það nái ekki til lands í skógrækt, enda er flestum ljóst að skógur er ekki ræktað land í sama skilningi og tún og sáðlönd, segir í greinargerð. Í þessu felst að sjálfsögðu engin afstaða gegn skógrækt sem fer raunar oft fram á landbúnaðarsvæðum með góðum árangri, svo sem skjólbeltarækt o.s.frv. En ég velti fyrir mér: Getur þessi breyting haft áhrif í samspili við önnur lög?