151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

jarðalög.

375. mál
[16:47]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Raunar var það svo, þegar frumvarpið var afgreitt úr mínum þingflokki til þingsins, að ég setti við það sérstakan fyrirvara um að nefndin færi vel yfir áhrif þess að taka orðin „land í skógrækt“ út úr 20. mgr. 2. gr. laganna og mun ég ítreka það við nefndina. Ég hef hins vegar verið mikill talsmaður þess að til verði leiðbeiningar um flokkun lands í skipulagi í dreifbýli. Ég held að það sé grundvöllur að svo mörgu. Það er grundvöllur að nýtingu þeirra stjórntækja sem til eru, bæði í skipulagslögum og jarðalögum. Ég vil þá í seinna andsvari beina þeirri spurningu til ráðherra hvort mögulegt væri fyrir nefndina, sem fer yfir þetta frumvarp, að fá að sjá drög að flokkuninni. Ég held að það sé lykilatriði til að átta sig á afleiðingum breytinga á skilgreiningum.

Ég vil í framhaldi af því velta því upp hvort það gæti verið tilefni til þess að setja fram fleiri en einn flokk ræktanlegs lands, þ.e. í fyrsta lagi þennan flokk, sem er kannski minnstur hluti landsins, sem við viljum virkilega tryggja að ekki sé tekið óafturkræft til annarra nota en ræktunar fóðurs eða matvæla, og í öðru lagi annan flokk ræktanlegs lands þar sem skógrækt o.fl. gæti fallið undir. Raunar er það þannig í skipulagslögum að til er flokkur sem ætlaður er fyrir endurheimt landgæða en kannski ekki sérstaklega fyrir skógrækt í landbúnaðarskyni.