151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

horfur í ferðaþjónustu.

[10:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þau voru góð svo langt sem þau náðu en þau lutu samt frekar að hugmyndum og sýn ráðherrans til lengri tíma og ég get að mörgu leyti tekið undir þá sýn. En ég er að spyrja um næstu skref. Nú hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar til aðstoðar fyrirtækjum verið í formi tekjufallsstyrkja, lokunarstyrkja, hlutabóta og annars slíks. Við erum að tala um það í sambandi við ferðaþjónustuna að ef erlendir ferðamenn koma ekki verða hér innlendir ferðamenn. Við afgreiðslu fjárlaga 2021 lagði Viðreisn til að ferðagjöfin yrði útvíkkuð og stækkuð. Þessi ferðagjöf, sem var hluti af björgunaraðgerðum, þótti takast vel en er ekki ástæða til að líta til skemmri tíma og leita frekari leiða til að örva ferðaþjónustu með innlendum ferðamönnum í stað þess að fara í enn frekari aðgerðir fyrirtækja sem eru að loka, hjálpa þeim að loka, hjálpa þeim að segja upp, hjálpa þeim að lifa af engin viðskipti? Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er ekki ástæða til að taka undir — hefur afstaða hennar eitthvað breyst — tillögu Viðreisnar (Forseti hringir.) um að hækka gjöfina til að verja peningunum frekar í viðskiptin þannig að ferðaþjónustan á Íslandi njóti þó (Forseti hringir.) þeirra viðskipta sem innlendir ferðamenn geta skapað?