151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

húsnæðiskostnaður.

[11:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er allt rétt sem hæstv. ráðherra bendir á. Við erum að skoða ábyrgð sveitarfélaganna á sama tíma og við erum að lenda í Covid-faraldri þar sem sveitarfélög koma í rauninni til með að þurfa að draga saman fjárfestingar til að standa undir rekstri. Við höfum glímt við þennan vanda síðan ferðamenn fóru að koma á fleygiferð hingað til lands og Airbnb tók svona hressilega við. Við vitum alveg hvernig kosningarnar 2017 voru, þá var mikið talað um þennan framboðsvanda. Nú fjórum árum síðar erum við enn þá í sömu stöðu, ekkert mikið betri ef eitthvað er, ef ekki verri. Það hlýtur að vera áskorun hjá okkur á næstunni að við þurfum að gera eitthvað öðruvísi, hvað þá núna ofan í þetta ástand sem Covid er að skapa hjá sveitarfélögum.