151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

staða stjórnarskrármála.

[11:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það var vel til fundið hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að efna til umræðu um þá vinnu sem farið hefur fram vegna hugsanlegra breytinga á stjórnarskránni. Eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi hafa þetta verið allmargir fundir, 25 fundir, og eðli máls samkvæmt hafa menn rætt málin mikið þar en oft hins vegar rætt sömu hluti á sama hátt. Að mínu mati kom tiltölulega fljótlega í ljós að erfitt yrði að ná samstöðu meðal formanna um a.m.k. sumar tillagnanna að stjórnarskrárbreytingum. Sjálfur hef ég mestar áhyggjur af fullveldisákvæðinu svokallaða, sem er reyndar ekki lagt til að breytist í bili. En maður óttast hvað fylgir, sérstaklega ef hér er verið að leggja línurnar upp á nýtt um það hvernig staðið verði að stjórnarskrárbreytingum. Mér finnst ekki fögur áferð á því að stjórnarskrárbreytingar séu lagðar fram sem þingmannamál í ágreiningi, talsverðum ágreiningi, eins og ég held að sé óhætt að segja eftir þessa fundi undanfarin misseri. Hættan er sú að málið þróist með þeim hætti að á næsta þingi eða þarnæsta, með annars konar ríkisstjórn, muni menn fara að sams konar leið og stjórnarskrárbreytingar verði eins og hvert annað pólitískt deiluefni hér í þinginu. Það væri að mínu mati mjög óæskileg þróun. Ríkisstjórnin færi jafnvel aftur og aftur að breyta stjórnarskrá til að ná einhverjum pólitískum markmiðum í ljósi þess hvernig henni var breytt síðast. Því hef ég áhyggjur af því fordæmi sem gæti myndast með þessari aðferð.