151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[18:28]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Í upphafi máls síns gat hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir þess að hvorugum okkar hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni hefði tekist að sannfæra sig. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki viss um að mér muni nokkurn tímann takast að sannfæra hv. þingmann um nokkurn skapaðan hlut. (Gripið fram í.) Nei, ég held það nú reyndar ekki. En ég ætla að byrja á því að nefna að ef hv. þingmaður var að vísa til ræðu minnar þegar hún notaði tvö orð, annars vegar orðið bann, þá minnist ég þess ekki að það hafi komið fyrir í minni ræðu, ég talaði að vísu um afnám og að hverfa frá og annað af því tagi. Í ræðu hv. þingmanns kom líka fyrir orðið hatur og ég get ekki tekið það til mín vegna þess að ég er ekki í tilfinningalegu sambandi við verðtrygginguna þannig að ég frábið mér eiginlega að mér séu eignaðar slíkar tilfinningar ef hv. þingmaður skyldi hafa verið að vísa til mín í sínu máli.

En það eru margar spurningar sem vakna varðandi afstöðu hv. þingmanns. Álítur hv. þingmaður að við getum ekki verið sjálfstæð þjóð norður í hafi nema að hafa þessa verðtryggingu? Af hverju getum við ekki haft hlutina eins og þeir eru hafðir í okkar nágrannalöndum, í Danmörku og Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, Norðurlöndum sem við berum okkur saman við? Hver er ástæðan? Vill hv. þingmaður halda því að fólki að til að fjármagna húsnæði sitt (Forseti hringir.) þurfi það að taka ábyrgð á afleiðu (Forseti hringir.) sem er ekki nema á færi sérfróðra kunnáttumanna? (Forseti hringir.) Verðtryggingin er afleiða. Þetta eru afleiðuviðskipti. Ég hef nokkrar fleiri spurningar til hv. þingmanns en byrjum á þessu.