151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

lög um sjávarspendýr.

[14:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Mig langar að ræða við hæstv. ráðherra um sjávarspendýr. Mig langar ekki að spyrja ráðherrann út í afstöðu hans til hvalveiða af því að ég held að við eigum nógu mikið af fyrirspurnum þar sem kallað er eftir þeirri skýru afstöðu ráðherrans og hans flokks, heldur langar mig að spyrja út í lagarammann utan um þessar dýrategundir. Lög um hvali eru að uppistöðu til 70 ára gömul og lagaramminn utan um seli teygir sig 700 ár aftur í tímann. Þessar tegundir vantar heildarlög. Sama hvað okkur finnst um veiðar og vernd hvala og sela þá vantar skýran og góðan lagaramma utan um þær tegundir, ekki bara út af hefðbundnari sjónarmiðum veiða og verndar heldur líka til að geta rammað inn þá nýju starfsemi sem utan um þær hefur skapast, ferðaþjónustuaðila sem sýna villta seli í náttúrulegu umhverfi og hvalaskoðunarfyrirtæki sem gera út í kringum hvali.

Málið er nefnilega að öll rök mæla með því að fella þessar tegundir inn í villidýralögin. Það var niðurstaða villidýraskýrslunnar svokölluðu sem unnin var á árunum 2010–2013 og liggur til grundvallar frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra sem er til meðhöndlunar í umhverfis- og samgöngunefnd þessa dagana. En ekki náðist niðurstaða á milli ráðuneyta um að fella seli og hvali inn í þau lög að þessu sinni.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um álit hans á því að færa sjávarspendýr undir villidýralög eins og sérfræðingar mæla með og eins og umhverfisráðherra segir að sér þyki eðlilegt. Mig langar líka að spyrja ráðherrann hvaða viðræður hafi átt sér stað varðandi slíka millifærslu á milli ráðuneytanna í aðdraganda frumvarps umhverfisráðherra.